„Þetta kom mér á óvart. Sérstaklega þar sem Ólöf hafði lýst því yfir að hún ætlaði að hætta í pólitík í bili. En hún er að sjálfsögðu vel að þessu komin. En ég held að þetta hafi komið bara öllum á óvart. Og það verður bara athyglisvert að sjá hvernig henni tekst að vinna úr þeim miklu málum sem þarf að glíma við í þessu ráðuneyti,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is vegna þeirrar ákvörðunar að Ólöf Nordal verði næsti innanríkisráðherra.
Það hafi líka komið henni á óvart að dómsmálin verði aftur færð til innanríkisráðherra í ljósi þess að rætt hafi verið um að tímabært væri að færa þann málaflokk í sérstakt ráðuneyti. „Ég hefði viljað skipta upp innanríkisráðuneytinu og hafa þetta eins og það var því þetta eru ólíkir málaflokkar. En ég á von á því að það verði gert því þetta passar ekki saman, samgöngumálin og síðan dómsmálin. En ég vonast bara til þess að eiga gott samstarf við Ólöfu vegna þess að við erum að vinna mjög merkilega vinnu með fólki úr ráðuneytinu varðandi útlendingalögin. Þannig að ég vona að hún taki eins afgerandi forystu varðandi það og Hanna Birna gerði.“