„Vitni eru sammála um að þetta hafi gengið fumlaust og snögglega fyrir sig. Ákærði hafi gengið að konunni eftir að hún braut af sér, tekið i hönd hennar og skellt henni niður. En það er algjörlega rangt að hann hafi beitt einhverju óþarfa ofbeldi,“ sagði Páll Arnór Pálsson, verjandi lögreglumanns sem ákærður var og sakfelldur í héraði fyrir líkamsárás og brot í starfi. Málflutningur fór fram í málinu fyrir Hæstarétti í morgun.
Áður hefur verið greint frá málflutningi ákæruvaldsins í málinu en saksóknari gerir þá kröfu að refsing lögreglumannsins verði þyngd. Páll Arnór gerði hins vegar þá kröfu fyrir skjólstæðing sinn að hann verði sýknaður af öllum kröfum, bótakröfu vísað frá og allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Páll Arnór sagði óumdeilt að lögreglumaðurinn mátti handtaka konuna eftir að hún veittist að honum með ofbeldi en hún hrækti á hann og hlaut dóm fyrir. „Ég lít þannig á og gögn málsins sýna fram á, að hann hafi beitt réttum aðferðum við handtökuna.“ Vísaði hann til þess að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur komi fram að fullt tilefni hafi verið til handtökunnar og að beitt hafi verið lögmætum aðferðum.
Hann sagði að lögreglumanninum hafi á þessari stundu verið heimilt að beita handtökuaðferðinni, hinni svonefndu norsku aðferð, og að það hafi verið fyllilega réttmætt. „Hún sýndi að hún var fær um að veitast að lögreglu með ofbeldi og því þurfti að taka hana föstum tökum,“ sagði Páll og einnig að með því að taka hana lögreglutökum hafi verið komið í veg fyrir frekara ofbeldi af hálfu konunnar. „Þegar handtaka fer fram er það valdbeiting og það er ekki hægt að komast hjá því að hinn handtekni fái smá mar.“
Auk þess benti hann á að konan hefði veitt mikla mótspyrnu í lögreglubílnum á leið á lögreglustöð og mögulega hafi hún fengið nefnt mar þá.
Hvað varðar það að konan rakst utan í bekk þegar hún var handtekinn sagði Páll Arnór auðsjáanlegt af myndbandsupptökum að það hafi ekki verið ásetningur hjá lögreglumanninum. Þarna hafi átt sér stað óhapp við handtökuna og algjörlega ósannað sé að honum hafi mátt vera það ljóst að hún myndi rekast í bekkinn. „Það er algjörlega út í hött að sakfella hann fyrir líkamsárás þar sem enginn ásetningur var til að meiða konuna.“
Hann sagði að þarna hefði lögreglumaðurinn þurft að taka ákvörðun í skyndi og ekkert hafi mælt gegn því að hann beitti þessari tilteknu handtökuaðferð. Það sé mat lögreglumanns hverju sinni hvaða aðferð er best að nota og full ástæða var til þess að nota norsku aðferðina í þessu tilviki. „Hún var vanstillt og hrækti á hann. Það þurfti að koma þessari vanstilltu konu á lögreglustöð. Það var ekki spurning hjá lögreglumönnunum á vettvangi að þetta var nauðsynlegt og lögreglumaður sem var með í bílnum aðstoðaði við þessa fumlausu aðgerð.“
Í lok ræðu sinnar gagnrýndi hann meðferð málsins fyrir dómi en 17 mánuðir eru frá því atvik máls áttu sér stað. Hann sagði allt hafa gengið eðlilega fyrir sig framan af en þegar kom að áfrýjun hafi hún óhemju langan tíma. Dómur hafi fallið í héraði 6. desember og ári síðar sé verið að fjalla um það í Hæstarétti. Lögreglumaðurinn hafi verið leystur frá störfum þegar málið kom upp í júlí í fyrra, mikil óvissa sé um framhaldið og margföld refsing felist í þeirri stöðu. Verði hann sakfelldur eigi refsing því að falla niður.