Saksóknari embættis ríkissaksóknara fór fram á það við málflutning fyrir Hæstarétti í morgun að refsing lögreglumanns sem ákærður var fyrir líkamsárás og brot í starfi verði þyngd. Sé miðað við dómafordæmi sem saksóknarinn vísaði til er farið fram á tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Eins og komið hefur fram var lögreglumaðurinn ákærður fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi vegna handtöku konu á Laugavegi að morgni 7. júlí, nánar tiltekið rétt eftir klukkan fimm. Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi lögreglumanninn og dæmdi hann til að greiða 300 þúsund króna sekt.
Fyrir Hæstarétti í morgun gerði Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, þær dómkröfur að refsingin verði þyngd. Hún benti á að strangar kröfur séu gerðar til þeirra sem hafa heimild til valdbeitingar og að brot sem framin séu með þessum hættu séu alvarleg. Hún hvatti dómara málsins til að horfa til refsingar í máli 477/2003 en þá var lögreglumaður dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir handtöku án nægilegrar ástæðu, ranga skýrslugerð og að beita úðavopni án tilefnis.
Kolbrún benti á að tvo myndskeið liggi frammi í málinu sem sýni atburðarrásina og að hún sé óumdeild. Ágreiningur í málinu sé um það hvort lögreglumaðurinn fór offari við handtökuna og ekki um það hvort hann hafi beitt lögmætri handtökuaðferð. Honum hafi á umræddri stund verið heimilt að handtaka konuna en óvíst sé hvort hann hafi þurft að beita svo mikilli hörku og valdi sem raun bar vitni. Þá sé einnig deilt um það hvort nauðsynlegt var að handjárna hana og einnig hvort hún hafi verið færð í lögreglubíl með réttum hætti.
Héraðsdómur sakfelldi lögreglumanninn aðeins fyrir að hafa farið offari við handtökuna og sagði í niðurstöðu dómsins að með því hefði hann gerst sekur um líkamsárás og brot í starfi. Lögreglumaðurinn var hins vegar sýknaður af öðrum ákæruliðum, taldi héraðsdómur að rétt hefði verið að handjárna konuna og að hún hefði verið færð í lögreglubílinn með réttum hætti.
Í dómi héraðsdóms var byggt á því að konan hafi verið mjög ölvuð og að lögreglumanninum hafi ekki geta dulist það. Honum hafi því átt að vera ljóst að hún myndi ekki veita mikla mótspyrnu við handtöku. „Það er í raun verið að vísa til þess að eftir að hún hrækti á hann hafi verið heimilt að handtaka hana, og rétt að gæta þess að andlit hennar sneri frá honum svo hún gæti ekki hrækt á hann aftur, en beita hefði þurft vægari leiðum. Það er tekið undir þetta af hálfu ákæruvaldsins, hann hefði getað handtekið hana með vægari hætti.“
Kolbrún sagði að til stuðningssakfellingu megi benda á að óumdeilt sé að í störfum lögreglu gildi strangar reglur um valdbeitingu og þar vegi meðalhóf þungt. Hún vísaði 14. grein lögreglulaga en þar segir: „Handhöfum lögregluvalds er heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni.“ Einnig vísaði hún í 2. mgr. 13. gr. sömu laga en þar segir að lögreglumenn megi ekki beita sakaðan mann harðræði fram yfir það sem lög heimila og nauðsynlegt sé til þess að vinna bug á mótþróa hans.
„Ákæruvaldið telur að með hliðsjón af reglum um meðalhóf þá hafi hann farið offari og beitt harkalegri aðferðum en efni stóðu til,“ sagði Kolbrún og bætti síðar við að ekkert benti til þess að konan ætlaði að hrækja aftur á lögreglumanninn eða að hún hafi verið ógnandi í framkomu á nokkurn hátt. Með því að beita umræddri handtökuaðferð á þessari stundu hafi hann gerst sekur um líkamsárás og að hann hafi mátt gera sér grein fyrir því að hætta væri á að konan myndi slasast.
Réttargæslumaður konunnar gerði þá kröfu að lögreglumaðurinn greiði henni eina milljón króna í miskabætur og tæplega þrjátíu þúsund krónur í sjúkrakostnað. Hún sagði að áverkar konunnar hefðu verið umtalsvert meiri en ef rétt hefði verið staðið að handtökunni og líta verði til alvarleika brotsins og þeirra afleiðinga sem brotið hafi valdið konunni, bæði andlega og líkamlega.
Hún sagði að atburðurinn hefði haft talsverðar andlegar afleiðingar fyrir konuna enda hafi fjölmiðlar áreitt hana stanslaust og meira að segja setið fyrir henni á vinnustað hennar. Fjölmiðlaumfjöllunin um málið hafi því haft mikil áhrif á líf hennar.
Þá vísaði hún til þess að konan hafi sjáanlega verið í annarlegu ástandi og hafi því frekar þurft á hjálp lögreglu að halda. Þess í stað hafi lögreglumaðurinn ráðist á hana, án þess að hún hafi veitt mótspyrnu eða yfirleitt verið til stórræða í ástandi sínu.