Tekist verður á um það fyrir Hæstarétti í dag hvort lögreglumaður hjá embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins hafi beitt viðurkenndri handtökuaðferð þegar hann handtók konu á Laugavegi í júlí 2013. Lögreglumaðurinn var í héraðsdómi dæmdur til að greiða 300 þúsund króna sekt fyrir brot í starfi.
Lögreglumaðurinn var ákærður fyrir líkamsárás vegna handtöku á Laugavegi í júlí í fyrra. Dómur yfir manninum var kveðinn upp fyrir rétt tæpu ári, eða 6. desember 2013. Hann var dæmdur til greiðslu sektarinnar fyrir að hafa farið offari við handtökuna og beitt meira valdi en nauðsyn bar til. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir líkamsárás í opinberu starfi.
Myndband af lögreglumanninum við handtökuna fór sem eldur í sinu á samfélagsmiðlum og var hann í kjölfarið leystur frá störfum. Við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur sagði lögreglumaðurinn að um fumlausa handtöku hefði verið að ræða.
Í október í fyrra var konan dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hrækja á lögreglumanninn sem handtók hana. Konan játaði skýlaust brot sitt fyrir dómi.