Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir ekki rétt að ákveðið hafi verið að lögreglan á Höfn skyldi falla undir umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi eins og fram kom í frétt mbl.is fyrr í kvöld. Hið rétta sé að engin ákvörðun hafði verið tekin um það hvoru umdæminu Hornafjörður skyldi tilheyra, enda hafði reglugerð um umdæmi lögreglu ekki verið sett.
Eins og mbl.is greindi frá var eitt síðasta opinbera verk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem starfandi dómsmálaráðherra, að skrifa undir nýja reglugerð um lögregluumdæmi lögreglustjóra. Samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra skal sveitarfélagið Hornafjörður tilheyra umdæmi lögreglustjórans á Austurlandi í stað Suðurlands.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga segir ákvörðunina koma gríðarlega á óvart og vera vinkilbeygju frá öllu því sem áður hafi verið rætt, enda var undirbúningur sameiningar hafinn af hálfu tilvonandi lögreglustjóra Suðurlands.
„Lögreglan á Höfn hefur reyndar verið í góðu samstarfi við lögreglu á Austurlandi hingað til. Ákvörðun dómsmálaráðhera felur því ekki í sér breytingu frá fyrra ástandi að því leyti,“ skrifar Jóhannes Þór í tölvupósti til mbl.is.
Þá bendir hann á að um tímabundna tilhögun sé að ræða, þ.e.a.s. þar til gerð hefur verið úttekt á rekstrarstöðu lögreglunnar á Austurlandi og hún endurskoðuð, ef þörf krefur.