Uppeldissaga bræðranna dapurleg

Stefán Logi Sívarsson fremstur. Bræðurnir þykja nokkuð líkir í útliti.
Stefán Logi Sívarsson fremstur. Bræðurnir þykja nokkuð líkir í útliti. mbl.is

Skeljagrandabræðurnir svonefndu, Kristján Markús og Stefán Logi Sívarssynir, hafa báðir ítrekað komist í kast við lögin og það frá því þeir voru á barnsaldri. Báðir sitja þeir á bak við lás og slá þessa daganna, Stefán Logi afplánar dóm en Kristján Markús sætir gæsluvarðhaldi.

Báðir voru bræðurnir dregnir fyrir dóm í apríl 2003 þegar þeir voru ákærðir fyrir hrottafengna líkamsárás á heimili þeirra á Skeljagranda og á göngustíg þar fyrir utan. Fórnarlambið hlaut fjóra skurði á höfði, tólf stungusár í andliti og á líkama, þrettán marbletti, glóðarauga báðum megin auk nefbrots og fleiri áverka. Alvarlegast var þó höfuðkúpubrot og blæðing sem af því hlaust en minnstu munaði að hann hlyti bana af.

Merkilegt er að atlagan sú líkist um nokkuð þeirri sem Stefán Logi var dæmdur fyrir og tveimur málum sem Kristján Markús er grunaður um aðild að, en ekki hefur verið gefin út ákæra í.

Líkindin felast kannski helst í því að fórnarlömbin eru svipt frelsi sínu um lengri eða styttri tíma á meðan þau eru pyntuð og oftar en ekki eru vopn notuð.

Urðu neyslufélagar föður síns

Þegar réttað var yfir þeim bræðrum í apríl 2003 rakti saksóknari uppeldissögu þeirra. Hún var að sögn saksóknara dapurleg og samkvæmt honum var það faðir þeirra sem leiddi syni sína á glapstigu. Þegar þeir voru 12-13 ára þáðu þeir fíkniefni hjá föður sínum og urðu upp úr því neyslufélagar hans. Hann ýtti undir ofbeldishneigð þeirra með því að segja hetjusögur af slagsmálum og kallaði jafnvel á þá til að taka þátt í handalögmálum. Móðir þeirra var ekki nægilega sterk til að sporna gegn þessu.

Sálfræðingur kom þá fyrir dóminn og lýsti því að bræðurnir hefðu mótast af langvarandi fíkniefnanotkun auk þess sem uppeldisaðstæður þeirra hefðu haft veruleg áhrif á persónuleika þeirra. Hann sagði þá, árið 2003, að þeir ættu „möguleika á að koma sér út úr þessu öllu saman“ en til þess þyrftu þeir að hætta allri fíkniefnaneyslu. Sníða þyrfti þeim mjög þröngan ramma til langs tíma og þeir þyrftu að temja sér „hversdagslega lífshætti“ og benti á að þeir hefðu aldrei verið undir vinnu- eða námsaga.

Þá ávörpuðu bræðurnir báðir dóminn og sögðust sjá eftir verknaðinum og hétu því jafnframt að losa sig úr þeim vítahring sem líf þeirra væri í. Þeir voru dæmdir í fangelsi fyrir árásina og eftir það hefur þeim ekki tekist að losna úr fjötrun sínum.

Ráðast á börn, unglinga og ungar mæður

Meðal þeirra brota sem þeir bræður hafa framið í sameiningu má nefna að árið 1992 réðust þeir í sameiningu á unga móður og gengu harkalega í skrokk á henni á Eiðistorgi. Móðirin hafði þá reynt að vernda börn sín fyrir þeim en þau voru með tombólu í verslunarkjarnanum. Bræðurnir rændu ágóðanum.

Þá réðust þeir á karlmann við áramótabrennu við Ægissíðu í Reykjavík.

Einnig má nefna að Stefán Logi var í október 2004 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir sérstaklega fólskulega líkamsárás. Þá réðist hann á 16 ára pilt og sló hann með krepptum hnefa í andlit og maga svo hann féll í gólfið og sparkaði svo í kvið hans þar sem hann lá á gólfinu.

Afleiðingarnar urðu þær að milta piltsins rifnaði og af hlaust lífshættuleg innvortis blæðing. Jafnframt hlaut pilturinn áverka á kjálka og jaxl í neðra gómi hans brotnaði.

Kristján Markús var svo dæmdur í sex mánaða fangelsi 18. desember 2008 fyrir líkamsárás, með því að hafa þriðjudaginn 15. júlí 2008, í bakgarði við í Reykjavík, komið æðandi að 8 ára gömlum dreng, öskrað á hann, gripið þéttingsfast utan um báða upphandleggi hans og hrist hann til, með þeim afleiðingum að hann missti þvag og hlaut marbletti aftanvert á báða upphandleggi.

Fór lítið fyrir þeim í nokkur ár

Báðir höfðu látið fara nokkuð lítið fyrir sér fara undanfarin ár eða þar til Stefán Logi var dæmdur fyrir nauðgun í janúar 2013. Hann var síðar sýknaður af henni í Hæstarétti.

Við málflutning í Stokkseyrarmálinu sagðist lögmaður Stefáns Loga hafa fylgst með því hvernig líf hans tók skarpa dýfu og hann fallið í fen fíkniefnaneyslu þegar nauðgunarmálið kom upp. Neysla hans hafi vaxið frá degi til dags.

Í þeirri dýfu lenti Stefán Logi til að mynda í hrottalegri líkamsárás í Ystaseli í Breiðholti 17. maí 2013. Atvik máls í Stokkseyrarmálinu gerðust svo í lok júní í fyrra en hann hefur verið í haldi lögreglu síðan.

Svipaða sögu má segja um Kristján, þ.e. að hann hefur látið lítið fyrir sér fara undanfarin ár. Það virðist hins vegar hafa breyst á þessu ári, ef marka má gæsluvarðhaldsúrskurð yfir honum.

Fari svo að Kristján Markús verði sakfelldur fyrir þau brot sem honum er gefið að sök má heita ljóst að þeir Skeljagrandabræður munu næstu ár vera í umsjá fangelsismálayfirvalda.

Stefán Logi í gráu peysunni.
Stefán Logi í gráu peysunni. -
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert