Vildu mæta Þóreyju í dómssal

Tveir blaðamenn DV, þeir Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon, hafa sent frá sér tilkynningu vegna dómsáttar þeirra, ásamt ritstjórn DV, við Þóreyju Vilhjálmsdóttur. Í dómsáttinni var samið 330.000 króna greiðslu í sáttaskyni sem Þórey mun láta renna til Stígamóta.

Í tilkynningu fréttamannanna segja þeir það áhyggjuefni fyrir blaðamenn á Íslandi að geta von á því að ráðherrar og pólitískir aðstoðarmenn vegi að starfsöryggi þeirra með þeim hætti sem birst hefur í lekamálinu. 

Þá segjast þeir hafa lýst yfir einlægum vilja til að mæta Þóreyju í dómssal, en að eigendur DV ehf. hafi hins vegar viljað leita sátta og þeir unað við það. Hafi þeir ekki kært sig um að sitja uppi með háa reikninga, og hvað þá að betla fé af vinum og vandamönnum til að geta greitt þá. „Við erum ekki á þingfararkaupi en vinnum við að flytja fréttir, meðal annars um það sem ráðherrar og aðstoðarmenn þeirra vilja að leynt fari,“ segja þeir í tilkynningunni. 

„Á heilu ári virðist það aldrei hafa hvarflað að stuðningsmönnum innanríkisráðherra að skammast sín. Við skömmumst okkar fyrir þau mistök sem við gerðum í sumar. En á heildina litið erum við stoltir af okkar hlut í að fletta ofan af valdníðslu og mannréttindabrotum. Með dómsátt þessari kaupum við okkur frið til að skrifa áfram um hver þau öfl sem ljúga að almenningi og níðast á umkomulausu fólki,“ segir að lokum. 

Sjá frétt mbl.is: Greiddu Þóreyju 330.000 í sáttaskyni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert