Eitt síðasta opinbera verk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem starfandi dómsmálaráðherra, var að skrifa undir nýja reglugerð um lögregluumdæmi lögreglustjóra. Samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra skal sveitarfélagið Hornafjörður tilheyra umdæmi lögreglustjórans á Austurlandi í stað Suðurlands eins og áður hafði verið ákveðið.
Samkvæmt hemildum mbl.is áttu 51 milljón króna af ríkisfjárveitingum að færast frá lögregluembættinu á Austurlandi til Suðurlands vegna fyrirhugaðra breytinga á umdæmum en vegna ákvörðunar Sigmundar Davíðs, sem er þingmaður norðausturkjördæmis, má gera ráð fyrir að ekki verði af þeim fyrirætlunum.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga segist ekki átta sig á því hvernig málið hafi fengið þennan farveg. Hornafjörður heyrir undir suðurkjördæmi og segir Gunnar að samhugur hafi verið um að starfsemi ríkisins á Suðurlandi, hvort sem hún snýr að löggæslu, heilsugæslu eða öðru, myndi fylgja kjördæminu.
„Við höfðum bara ekki haft neinar áhyggjur af þessu í ljósi umræðunnar og þeirra tillagna sem lágu á borðinu, svo taka menn bara vinkilbeygju fyrir hádegi á fimmtudegi,“ segir Gunnar, sem segir ákvörðunina hafa komið sér verulega á óvart.
„Allar þær ályktanir og samræður mínar við bæjarstjórnarfulltrúa í Hornafirði, bæði fyrir og eftir sveitarstjórnarkosningar sneru að því að bæjarstjórn Hornafjarðar væri algjörlega sammála SASS um að þetta ætti að vera með þessum hætti,“ heldur hann áfram og lýsir yfir miklum vonbrigðum.
Segir hann vinnu við sameiningu embættanna á Suðurlandi þegar hafa verið hafna og að tilvonandi lögreglustjóri Suðurlands hafi jafnvel farið nokkrar ferðir á Höfn til að kynna sér aðstæður. Hann bendir á að til standi að Heilbrigðisstofnun Suðurlands nái austur á Hornafjörð og furðar sig á því að ákveðið sé að láta ríkisstofnanir heyra undir sitthvort kjördæmið.
Gunnar segist ekki hafa náð að ræða við nýjan dómsmálaráðherra, Ólöfu Nordal, en að þingmenn kjördæmisins séu hinsvegar jafn undrandi og hann sjálfur. Hann bendir á að breytingarnar eigi að taka gildi þann 31. desember og að því sé afar lítill fyrirvari til stefnu.
„Ég veit ekki hvort að við eigum að gera mönnum það að hugsa þetta í kjördæmapoti, ég bara trúi því ekki,“ segir Gunnar
„En hin faglega umræða hefur farið fram og þá veltir maður fyrir sér hvers vegna er ekki staðið við hana.“