Tilkynnt var um mikinn eld í strætó á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar. Fjórir farþegar voru í vagninum, og komust allir auðveldlega út úr vagninum ómeiddir. Eldurinn var nokkurn veginn bundinn við vélarrúm vagnsins, aftast í honum.
Slökkviliðið var um tíu mínútur að ráða niðurlögum eldsins. Grensásvegi var lokað til norðurs milli Miklubrautar og Fellsmúla, og var sá litli kafli ennþá lokaður þegar ljósmyndara mbl.is bar að garði núna klukkan 10:45, enda slökkvilið enn að athafna sig.
Fólk á göngu um Gnoðarvog tilkynnti um mikinn reyk og brunalykt á svæðinu. Eins og sést á myndinni hér að neðan lagði mikinn reyk frá vagninum, og virðist hann mikið skemmdur. Ekkert liggur fyrir um upptök eldsins.