Lognið á undan storminum

Það er ekki nema rúm vika síðan síðasta aftakaveður reið …
Það er ekki nema rúm vika síðan síðasta aftakaveður reið yfir landið. Von er á mjög vondu veðri í kvöld. Þórður Arnar Þórðarson

Það er ágætis veður um allt land, hægur vindur og stöku él, en léttskýjað sunnanlands. Það er frost um allt land og töluvert mikið frost víða fyrir norðan. En þetta er bara lognið á undan storminum því í kvöld er spá aftakaveðri, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands.

Suðaustan stormur eða rok (20-28 m/s) gengur yfir landið í kvöld og nótt, fyrst SV- og V-lands með snjókomu eða slyddu. Búast má við miklum vindhviðum við fjöll (40-50 m/s). Þessu fylgir talsverð úrkoma S- og V-lands og jafnvel mikil á SA-landi.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar varar við því að veðrið fari hratt versnandi undir kvöld á Hellisheiði, í Þrengslum og á Mosfellsheiði. Snjókoma þar, skafrenningur og afar lítið skyggni. Þá er spáð vindhviðum 40-50 m/s m.a. á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli frá kl. 18 og fram yfir miðnætti. Eins undir Eyjafjöllum og í Mýrdal í kvöld og fram á nótt.

Þriðjudagur:

Suðlæg átt, 5-13 m/s og víða él, en hvöss suðaustanátt með slyddu eða snjókomu NA-til í fyrstu. Léttir til á N- og A-landi síðdegis, en norðanstormur og snjókoma á Vestfjörðum um kvöldið. Frost 0 til 8 stig síðdegis, mildast syðst.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Hvöss norðanátt og snjókoma eða él, en úrkomulítið S-lands. Kalt í veðri.

Á föstudag:
Minnkandi norðanátt og él á N- og A-landi, en bjartviðri S- og V-lands. Talsvert frost.

Á laugardag:
Suðlæg átt og snjókoma, einkum S- og V-lands. Frost 1 til 12 stig, kaldast NA-lands.

Á sunnudag:
Útlit fyrir norðanátt með snjókomu N- og A-lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert