Karlmaður á fertugsaldri sem er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás á Stefán Loga Sívarsson í maí í fyrra neitaði sök við þingfestingu málsins í morgun.
Verjandi mannsins óskaði eftir að fá að skila greinargerð og verður næsta fyrirtaka í málinu 12. janúar nk. Gert er ráð fyrir því að þá verði ákveðið hvenær aðlameðferð málsins fari fram.
Árásin átti sér stað föstudaginn 17. maí 2013 í Ystaseli í Reykjavík. Stefán Logi hlaut verulega áverka og krefur ákærða, sem er 37 ára gamall, um 5 milljónir króna í miskabætur og 2 milljónir vegna tannlæknakostnaðar.
Í ákæru ríkissaksóknara segir að maðurinn hafi veist með ofbeldi að Stefáni Loga, slegið og sparkað ítrekað í höfuð hans og líkama, m.a. með hafnaboltakylfu, hnúajárni og armbandsúri sem hann beitti sem hnúajárni. Maðurinn veitti Stefáni Loga höggin og spörkin er Stefán Logi stóð og einnig er hann lá á jörðinni.