Hræðist ekki umræðuna

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra kynnti frumvarp um náttúrupassa í morgun.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra kynnti frumvarp um náttúrupassa í morgun. mbl.is/Kristinn

„Við höfum haft þetta mál núna til skoðunar í eitt og hálft ár og farið vandlega yfir alla þá kosti sem eru í boði og nefndir hafa verið til sögunnar. Að öllu vegnu og með öll þau markmið sem við erum að reyna að ná í huga teljum við að þetta sé sú leið sem gerir okkur kleift að ná utan um velflest þau markmið.“

Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra í samtali við mbl.is en hún kynnti á blaðamannafundi í morgun frumvarp sitt til laga um náttúrupassa. Þau markmið væru meðal annars að tryggja örugga fjármögnun til lengri tíma til verndurnar á náttúrunni og uppbyggingu innviða í ferðaþjónustunni. Hún leggur áherslu á að með náttúrupassanum sé ekki verið að greiða fyrir að sjá náttúruperlur heldur fyrir þá innviði sem byggðir hafa verið upp á ferðamannastöðunum til þess að gera þær aðgengilegar og vernda þær.

„Við erum að ná stærstum hluta gjaldsins frá erlendum ferðamönnum og erum að leggja mjög hóflegt gjald á Íslendinga sem hingað til hafa borgað mun meira til þessara mála í gegnum skattana. Þannig að eftir að hafa legið yfir þessum valkostum þá teljum við þetta góða leið til þess að tryggja sjálfbæra og örugga fjármögnun í ferðaþjónustunni.“

Opin fyrir breytingum á frumvarpinu

Frumvarpið var afgreitt af þingflokki framsóknarmanna í gær með fyrirvara um að breytingartillögur kynnu að koma fram af þeirra hálfu í meðferð þingsins á málinu líkt og mbl.is fjallaði um. Spurð hvort hún sé opin fyrir breytingum á frumvarpinu segir Ragnheiður: 

„Ég er mjög opin fyrir því og ég er mjög ánægð með það að þetta mál sé núna komið til þingsins. Auðvitað getur þingið alltaf gert breytingar á málum. Það er okkar hlutverk sem þingmanna að gera mál betri og vinna að þeim, kalla eftir umsögnum og ólíkum sjónarmiðum. Ég hvet fólk til að gera það og ég hvet þingmenn til að taka umræðuna á málefnalegum forsendum út frá þeim tillögum sem hér liggja fyrir og öðrum sem kunna að fæðast í vinnunni.“

Þess utan leggur hún áherslu á mikilvægi þess að ljúka málinu á vorþinginu enda sé um að ræða mjög aðkallandi mál. „Við verðum að leysa þetta verkefni og ég treysti okkur þingmönnum mjög vel til þess að ræða okkur niður á sameiginlega lausn. Ég er ágætlega bjartsýn á að það takist. Ég trúi því að þegar menn leggjast yfir þetta mál og skoða það út frá gögnum þess en ekki út frá einhverjum fyrirframgefnum skoðunum um eitthvað sem er ekki að finna í frumvarpinu þá sé hægt að taka umræðuna mjög málefnalega og ég hræðist hana ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert