Íslendingur í Ríki íslams?

AFP

Sýrlendingur sem starfaði áður með Ríki íslams heldur því fram að íslenskur kvikmyndagerðarmaður sé meðal liðsmanna hryðjuverkasamtakanna og taki meðal annars myndskeið fyrir samtökin. Þetta kemur fram í grein sem Sarah Birke, fréttamaður Economist í Mið-Austurlöndum, ritar.  Greinin birtist á vefnum The New York Review of Books í gær og birti Grapevine frétt um málið í nótt.

Í greininni ræðir Birke við Abu Hamza, sem flúði úr herbúðum Ríkis íslams. Það er hann sem heldur því fram að Íslendingur starfi með samtökunum og taki fagmannleg myndskeið sem notuð eru til þess að vekja athygli á starfi samtakanna og fá nýliða til starfa.

Meðal annars hefur Ríki íslams birt myndskeið af aftökum vestrænna gísla og hefur vakið athygli hversu fagmannlega þau eru gerð og hversu góð enska er töluð í þeim myndskeiðum sem Ríki íslams beinir að vestrænum borgurum. Því er hins vegar ekki haldið fram að Íslendingur hafi tekið upp myndskeið af aftökunum.

Bætt við klukkan 10:27

Utanríkisráðuneytið hefur ekki neinar upplýsingar um að það sé Íslendingur meðal liðsmanna Ríki íslams og er það í samræmi við þau svör sem Vísir fékk frá embætti ríkislögreglustjóra í lok september.

Samkvæmt Birke fullyrti viðmælandi hennar, Abu Hamza, þetta í viðtalinu en mjög erfitt sé að sannreyna slíkt á stað eins og Raqqa. 

Greinin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka