„Ríkisstjórnin hefur nú boðað að hún vilji lækka útvarpsgjaldið sem er alls ekki hátt í alþjóðlegum samanburði, sérstaklega ekki þegar við horfum á það hversu fámenn þjóð við erum, lækka útvarpsgjaldið sem alla ekki hefur fylgt þróun annarra fjárveitinga, útvarpsgjaldið sem stjórn Ríkisútvarpsins hefur sagt að halda þurfi óbreyttu.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag í umræðum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Minnti hún á að meirihluti stjórnar Ríkisútvarpsins, sex af níu fulltrúum, væri skipaður af ríkisstjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Rifjaði hún ennfremur upp að Framsóknarflokkurinn hefði greitt atkvæði með nýjum lögum um Ríkisútvarpið vorið 2013 þar sem meðal annars hafi verið lögð áhersla á mikilvægi þess að það gæti staðið undir lögboðnum skyldum sínum. Breytt afstaða flokksins kæmi á óvart.
„Við þurfum að halda útvarpsgjaldinu óbreyttu, segir stjórnin, og það þarf að renna óskert til stofnunarinnar til að hún geti sinnt því lögbundna hlutverki sem henni er markað í lögunum sem Framsóknarflokkurinn samþykkti vorið 2013.“