Segir heimsóknina í samræmi við reglur

Nemendur Langholtsskóla heimsækja Langholtskirkju á aðventunni.
Nemendur Langholtsskóla heimsækja Langholtskirkju á aðventunni. Kristinn Ingvarsson

Færsla Lífar Magneudóttur, varaborgarfulltrúa Vinstri grænna, formanns mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar og varaformanns skóla- og frístundaráðs, þar sem hún ræðir og vekur athygli á fyrirhugaðri heimsókn Langholtsskóla í Langholtskirkju hefur vakið nokkra athygli.

Hreiðar Sigtryggsson, skólastjóri Langholtsskóla segir í samtali við mbl.is að hann telji heimsóknina í fullu samræmi við reglur um samskipti leikskóla-, grunnskóla og frístundaheimila Reykjavíkurborgar við trúar- og lífsskoðunarfélög.

Hann bendir á að áralöng hefð sé fyrir heimsóknum skólans í kirkju á aðventunni og stendur þeim börnum sem ekki fara í heimsókn í kirkjuna til boða að njóta skemmtilegrar stundar í skólanum sem skipulögð er af kennurum.

Líf segir aftur á móti í samtali við mbl.is að hugvekjan sem er á dagskránni sé skýrt brot á reglunum. 

Í reglunum sem vísað er í hér að ofan segir meðal annars að heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma grunnskóla skulu eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðunar, samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá.

Þar segir einnig að þess skuli gæta að við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðunar að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum og þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni.

Telur hugvekju skýrt brot á reglum

„Í samskiptareglum trúar- og lífskoðunarfélaga og grunnskóla, þá á trúarinnræting ekki að gerast á skólatíma. Það er vafasamt að heill skóli fari og hlýði á hugvekju með presti í kringum aðventuna.

Prestar eru aldrei hlutlaus aðili og þeirra starf er að boða trú. Þetta verður ekki slitið í sundur. Ef slíkt er raunin þá er það skýrt brot á þeim reglum því skólinn á ekki að hafa milligöngu með trúboð eða innræta börnum,“ segir Líf í samtali við mbl.is. 

„Ég get vel ímyndað mér það, að þegar kirkjunni er skipt út fyrir annað trúfélag eða fyrir annan félagsskap sem vill innræta börnum tilteknar skoðanir þá myndi flestum þykja augljóst að eitthvað sé bogið við framkvæmdina.“

Tímasetningin skiptir líka máli

Ef þessi hugvekja væri ekki hluti af heimsókninni, væri þetta þá ekki brot á reglunum?

„Sjálfsagt eru alltaf einhver matsatriði. Best væri að þetta væri á forsendum fræðslu og þannig eiga heimsóknirnar að vera. Það er enginn að banna heimsóknir í kirkjuna, þetta er nokkuð skýrt í samskiptareglunum,“ segir Líf. 

En hvað liggja mörkin?

„Við hverja einustu aðventu, alltaf í kringum jólin, þá eru heimsóknir í kirkjur af því að það hefur verið hefðin. Margir eru auðvitað aldir upp við að fara kirkju, sumar fjölskyldur eru kristnar en tímarnir hafa breyst. Þjóðfélag okkar er fjölbreytt og samsett úr mörgum þráðum. Best er að opinberar stofnanir sem við öll eigum að hafa aðgang að gæti hlutleysis í hvívetna,“ segir Líf. 

„Best væri að skólinn væri hlutlaus stofnun og hefði ekki tengsl við nein trúfélög nema á forsendum fræðslunnar. Það er ekkert að því að fara með börn í mosku, ásatrúarfélagið, rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna eða kaþólsku kirkjuna á forsendum fræðslunnar. En þá er líka eins gott að gætt sé jafnræðis í fræðslu um hin ýmsu trúarbrögð og trúleysi. Það er líka tímasetningin sem skiptir mál.“

Þarf að fara í kirkju öll tíu árin?

Í meginviðmiðum sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett um hvernig skuli staðið  að samskiptum skóla og trúfélaga á öllum skólastigum segir að heimsóknir í kirkjur í tengslum við stórhátíðir kristninnar teljist hluti af fræðslu um trúarhátíðir og menningarlega arfleifð þjóðarinnar.

„Maður er tíu ár í grunnskóla, þarf maður að fá þessa fræðslu öll þessi tíu ár sem maður er í grunnskóla. Ég set spurningarmerki við það,“ segir Líf. 

Væri þá til dæmis réttara að börnin færu aðeins í heimsókn kirkjuna í fyrsta bekk og aldrei eftir það?

„Starfsfólki skólanna á að vera treystandi til að skipuleggja fræðslu á einn eða annan hátt með þetta í huga. Við hættum einhverntíma að læra n og nn regluna af því að við eigum að kunna hana. Ég spyr mig, þurfum við að fara tíu ár í kirkju af því að það er á forsendum fræðslu,“ segir Líf.

Alveg ótækt að skilja börnin eftir

Líf segir að skóla- og frístundasvið borgarinnar eigi að gera athugasemdir ef skóli fer yfir þessi mörk og það hafi verið gert í einhverjum tilvikum.

„Ég ætla á nýju ári sem formaður mannréttindaráðs, í samvinnu við ráðið, að kanna hvort það sé vilji til þess að gera almennilega úttekt á þessu, meðal annars hvað öðrum börnum standi til boða. Það er algjörlega ótækt að skilja börn eftir án þess að nokkuð sé skipulagt fyrir þau. Mér finnst líka, ef þetta á að vera hefðin, að þá verði að gefa börnum val í stað þess að segja að kirkjan sé normið. Þetta þurfum við hins vegar að ræða vandlega í pólitíkinni og í samfélaginu öllu.“

Frétt mbl.is: Líf gagnrýnir heimsókn í kirkju

Líf Magneudóttir.
Líf Magneudóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert