„Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð og það gerir okkur háttvirtum þingmönnum ómögulegt að sinna eftirlitshlutverki okkar ef hæstvirtir ráðherrar komast upp með að senda svona óboðleg svör frá sér.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag þar sem hún gagnrýndi svör Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við skriflegum fyrirspurnum frá henni og tveimur öðrum fulltrúum VG varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána en svarið var á þá leið að spurningunum yrði svarað í skýrslu sem lögð yrði fram á vorþingi.
„Ég gerði að sjálfsögðu ráð fyrir að þegar 80 milljörðum er úthlutað af almannafé liggi ítarlegir útreikningar að baki,“ sagði Katrín en svör við spurningunum hefðu ekki fengist í kynningu forystumanna ríkisstjórnarinar á aðgerðunum fyrr á árinu. Vel hefði mátt svara þeim upplýsingum sem þegar lægju fyrir. Allir hefðu skilning á því.
„En svarið sem ég fæ frá hæstvirtum ráðherra er að hann ætli að svara þessu seinna, hann ætli hér að leggja fram skýrslu einhvern tímann í vor þegar endanlegar niðurstöður liggja fyrir.“