„Framboð á maríjúana er orðið svo mikið hér á Íslandi, eftir því sem maður heyrir, að það er komið tækifæri til að flytja það héðan til Grænlands,“ segir Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Nýverið féll dómur í máli manns sem ætlaði að flytja 1,3 kíló af maríjúana og 210 grömm af hassi til Grænlands, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Hinn dæmdi missti reyndar kjarkinn þegar komið var til Grænlands og hætti við að reyna að smygla fíkniefnunum inn í landið. Hann flutti þau með sér aftur til Íslands þar sem tollverðir fundu þau og maðurinn var handtekinn. Dómur var svo kveðinn upp í vikunni og fékk maðurinn sex mánaða skilorðsbundinn dóm.