Hæstiréttur hefur staðfest sýknudóm yfir Reyni Traustasyni og Jóni Trausta Reynissyni, fyrrverandi ritstjóra og framkvæmdastjóra DV, í tveimur meiðyrðamálum sem Hilmar Leifsson höfðaði gegn þeim og dv.is. Hilmari var einnig gert að greiða hvorum fyrir sig 850 þúsund krónur í málskostnað og dv.is 350 þúsund krónur.
Við aðalmeðferð málsins í héraði sagðist Hilmar hafa verið mjög svekktur þegar hann sá umfjöllun DV og að erfitt væri að sitja undir ósannindum sem þessum. Hann neitaði því alfarið að hafa verið meðlimur í glæpasamtökum og hann sé ekki fyrrverandi meðlimur Vítisengla.
Umfjöllun DV birtist í blaðinu í ágúst 2012 og var um laun tiltekins fólks sem blaðið sagði tilheyra undirheimum Íslands. Var því meðal annars haldið fram að Hilmar væri fyrrverandi meðlimur í Vítisenglum (e. Hells Angels).
Var sú staðhæfing á meðal þeirra ummæla sem Hilmar vildi láta ómerkja. „Ég hætti þegar þeir fóru í þetta inngönguferli. Það var í kringum 2007. [...] Ég prófaði þetta af því ég hef gaman af akstri mótorhjóla. [...] Þetta virkaði saklaust og snerist um mótorhjól og að hjóla saman, fara í hópkeyrslur. Ég hafði hins vegar ekki áhuga á frekari samskiptum og alls ekki að tengjast Hells Angels,“ sagði Hilmar við aðalmeðferðina sem sagði félagsskapinn ekki hafa hentað sér.
Frétt mbl.is: Vítisenglar hentuðu ekki Hilmari
Frétt mbl.is: DV-menn sýknaðir af kröfum Hilmars