Refsing lögreglumannsins þyngd

Handtakan á Laugavegi.
Handtakan á Laugavegi.

Hæstiréttur hefur dæmt lögreglumann sem ákærður var fyrir líkamsárás og brot í starfi vegna handtöku á konu í miðborg Reykjavíkur í júlí í fyrra í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Myndskeið af handtökunni var dreift á netinu og var það upphafið að málinu.

Þá hefur honum verið gert að greiða konunni 429 þúsund krónur í bætur.

Í málinu var tekist á um það hvort lögreglumaðurinn hefði farið offari við hand­tök­una. Saksóknari sagði við málflutning fyrir Hæstarétti að lögreglumaðurinn hefði á um­ræddri stundu verið heim­ilt að hand­taka kon­una, enda hefði hún hrækt framan í hann, en óvíst væri hvort hann hefði þurft að beita jafn mik­illi hörku og valdi sem raun bar vitni. Þá var einnig deilt um það hvort nauðsyn­legt hafi verið að hand­járna konuna og einnig hvort hún var færð í lög­reglu­bíl með rétt­um hætti.

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur sak­felldi lög­reglu­mann­inn fyrir líkamsárás og brot í starfi og dæmdi hann til að greiða 300 þúsund króna sekt. Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að honum hafi verið heimilt að handtaka konuna, handjárna hana og að hún hafi verið sett inn í lögreglubíl á réttan hátt.

Saksóknari fór fram á það að dómur héraðsdóms yrði þyngdur og réttargæslumaður konunnar krafðist bóta upp á eina milljón króna.

Verjandi lögreglumannsins krafðist sýknu fyrir skjólstæðing sinn og sagði við málflutning að á þess­ari stundu hafi honum verið fyllilega heim­ilt að beita norsku hand­tökuaðferðinni og að það hafi verið rétt­mætt. „Hún [konan] sýndi að hún var fær um að veit­ast að lög­reglu með of­beldi og því þurfti að taka hana föst­um tök­um,“ sagði verjandi lögreglumannsins og einnig að með því að taka hana lög­reglu­tök­um hafi verið komið í veg fyr­ir frek­ara of­beldi af hálfu kon­unn­ar. „Þegar hand­taka fer fram er það vald­beit­ing og það er ekki hægt að kom­ast  hjá því að hinn hand­tekni fái smá mar.“

Auk þess benti hann á að kon­an hefði veitt mikla mót­spyrnu í lög­reglu­bíln­um á leið á lög­reglu­stöð og mögu­lega hafi hún fengið nefnt mar þá.

Uppfært klukkan 16.35

Í dómi Hæstaréttar segir: „Þegar litið er til ástands brotaþola sem fyrr er lýst og ástæðu handtöku hennar, fór ákærði offari við handtökuna og beitti brotaþola meira valdi en tilefni var til. Við þessar aðstæður var hvorki þörf á að setja hana í handjárn með þeirri aðferð sem beitt var, né að setja hana inn í bifreiðina með þeim hætti sem gert var.

Einn hæstaréttardómari skilaði séráliti. Hann var sammála meirihlutanum um sakfellingu en taldi að héraðsdómur ætti að vera óraskaður um refsingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert