Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í kvöld skipun Roberts C. Barber sem sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Frá þessu er greint á fréttavefnum The Hill. Barack Obama skipaði Barber sendiherra í lok október á síðasta ári. Bandaríkjamenn hafa ekki haft sendiherra hér á landi siðan Luis E. Arreaga lét af embætti í nóvember 2013.
Barber er fæddur árið 1950 í borginni Columbus í Georgíu-ríki í Bandarikjunum en ólst upp í Charleston í Suður-Karólínu. Hann lauk doktorsnámi í lögfræði frá Boston-háskóla árið 1977 og meistaragráðu í skipulagsfræðum frá Harvard-háskóla sama ár. Samhliða námi starfaði Barber sem fulltrúi á skrifstofu saksóknara í Boston og í New York. Hann starfaði síðan sem aðstoðarsaksóknari í New York-sýslu frá 1977-1981.
Barber gekk til liðs við lögfræðistofuna Looney & Grossman LLP árið 1981 þar sem hann hefur starfað allar götur síðan. Hann varð meðeigandi að stofunni 1985 og framkvæmdastjóri hennar 2001-2003. Lögfræðistofan hefur lagt áherslu á nýsköpunarfyrirtæki og rekstur einkamála tengdum viðskiptalífinu.
Barber er meðlimur í Demókrataflokknum. Hann lagði mikla fjármuni í kosningasjóði Obama á árunum 2008-2012. Fjallað er nánar um feril hans á vefnum Allgov.com.
Frétt mbl.is: Sendiherra bíður enn staðfestingar
Frétt mbl.is: Obama tilnefnir nýjan sendiherra