Eldur í Apótekinu

Slökkvibílar fyrir utan Apótekið í Austurstræti.
Slökkvibílar fyrir utan Apótekið í Austurstræti. mbl.is/Júlíus

Eldur kom upp í grilli á veitingastaðnum Apótekinu við Austurstræti í nótt. Rýma þurfti veitingastaðinn og hótelið sem er fyrir ofan. Um 90 manns voru á hótelinu og fjölmargir á veitingastaðnum. Um klukkustund tók að ráða niðurlögum eldsins. 

Mikill hiti varð í eldhúsinu og mikill reykur þar inni. Búið er að hleypa gestum aftur inn á hótelið.

Veitingastaðurinn var opnaður fyrir fáeinum dögum.

Tilkynning um eldinn barst slökkviliði rétt fyrir kl. 01 í nótt. Þegar slökkvilið kom á staðinn var töluverður reykur frá vegg á bak við grill þar sem eldurinn hafði læst sig inn á milli klæðningarinnar.

Allar stöðvar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út. Ákveðið var að rýma allan veitingastaðinn, sem var þéttsetinn, og einnig hótelið á efri hæðunum. Talið er að um 90 gestir hafi verið á hótelinu.

Rífa þurfti klæðningu frá vegg í eldhúsinu til að ráða niðurlögum eldsins og ganga úr skugga um að engin glóð leyndist þar, að sögn Sigurðar Lárusar Fossberg Sigurðssonar, varðstjóra slökkviliðsins.

„Þetta var mikið umfang en slökkvistarf gekk vel og starfsfólkið á veitingastaðnum og hótelinu stóð sig mjög vel. Það gerði rétt með því að setja háfinn fyrir ofan eldavélina á fullt svo að reykurinn sogaðist út og á meðan aðstoðaði það lögreglu við að rýma bygginguna,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Búið er að hleypa gestum aftur inn á hótelið. Þangað barst enginn reykur og ekki heldur í verslun Eymundsson sem er við hlið veitingastaðarins.

Þegar var hafist handa á veitingastaðnum við þrif. Litlar reykskemmdir urðu á veitingastaðnum.

„Fólk er alltaf skelkað þegar svona gerist,“ segir Sigurður spurður um viðbrögð gesta veitingastaðarins og á hótelinu. „En það héldu allir ró sinni og ég ítreka að starfsfólkið stóð sig frábærlega.“

mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert