10.000 nemendur sest á Skólaþing

Tíu þúsundasti nemandinn tók sæti í dag á Skólaþingi en því var komið á árið 2007 til þess að koma til móts við áhuga á því að koma með nemendur í vettvangsferðir á Alþingi. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, tók á móti nemendahóp frá Varmárskóla í morgun þar sem tíu þúsundasti nemandinn var innanborðs.

„Nemendur 70 grunnskóla hafa nú heimsótt Skólaþing. Á Skólaþingi fara nemendur efstu bekkja grunnskóla í hlutverkaleik og fylgja í stórum dráttum reglum um starfshætti Alþingis. Nemendurnir fá tækifæri til að setja sig í spor þingmanna með því að leiða til lykta fyrir fram ákveðin málefni sem fyrir þá eru lögð á þingflokksfundum, nefndarfundum og þingfundum. Jafnframt meta þeir rök sérfræðinga og annarra. Ætlunin er að veita innsýn í sambandið milli atburða í samfélaginu, skoðanamyndunar, pólitískra ákvarðana og starfa Alþingis. Nemendur eiga að komast að lýðræðislegri niðurstöðu með því að meta rök og álit annarra og taka afstöðu,“ segir á vefsíðu Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert