„Það hefur verið mikið átak á hinum Norðurlöndunum og Þýskalandi og víðar að uppræta svona lagað enda er það ekkert annað en skipulögð glæpastarfsemi að selja eftirlíkingar,“ segir Skúli Rósantsson, eigandi húsgagnaverslunarinnar Casa sem er söluaðili Cassina-húsgagna á Íslandi, í samtali við mbl.is en framleiðandi húsgagnanna á Ítalíu hefur farið fram á að eftirlíkingar af þeim sem finna má í ráðhúsi Reykjavíkur verði eytt og frumhönnun keypt í staðinn.
Fréttablaðið fjallar um málið í dag en húsgögnin hafa verið í ráðhúsinu allt frá árinu 1992 þegar húsið var vígt og tekið í notkun. Skúli segir aðspurður í samtali við mbl.is að Reykjavíkurborg hafi vitað af því að húsgögnin væru eftirlíkingar í mörg ár en ekkert gert í málinu. Það væri sérstaklega alvarlegt þegar opinberir aðilar eins og borgir og ríkisútvörp keyptu húsgögn og aðrar vörur sem væru eftirlíkingar framleiddar í gegnum skipulagða glæpastarfsemi, en Skúli segir einnig að finna slíkar eftirlíkingar hjá Ríkisútvarpinu sem notaðar hafi verið í útsendingum.
Boðin ný húsgögn nánast á kostanaðarverði
„Borgin er meðvituð um að þetta séu eftirlíkingar og á náttúrulega bara að fjarlægja þær,“ segir Skúli. Svæðisstjóri Cassina á Norðurlöndunum, Alex Colding, kom hingað til lands í apríl til þess meðal annars að kanna með húsgögnin og staðfesta að um eftirlíkingar væri að ræða. Aðspurður segist Skúli ekki vita til þess að áður hafi verið farið fram á það við Reykjavíkurborg að gera eitthvað í málinu en það hafi heldur ekkert frumkvæði verið af hálfu hennar.
„Þetta mál er búið að vera í gangi núna síðan í apríl og borgin er búin að vera að draga lappirnar með að taka ákvörðun um það hvað hún ætlar að gera,“ segir Skúli. Það hreyfi kannski við fulltrúum hennar núna þegar málið sé komið í fjölmiðla. Fjallað var um málið á fundi borgarráðs á fimmtudaginn og var því vísað til borgarlögmanns. Framleiðandi Cassina-húsgagna hefur hótað því að fara í skaðabótamál við Reykjavíkurborg verði ekki orðið við kröfu hans.
„Ég vona bara að þeir sjái sóma sinn í að fjarlægja þetta. Ég veit að Cassina hefur boðið þeim endurnýjun á þessum húsgögnum nánast á kostnaðarverði. Þannig að þeir hafa gert allt sem þeir hafa getað til að leysa málið á mjúkan hátt,“ segir Skúli en ef miðað væri við fullt verð gæti kostnaðurinn numið yfir 100 milljónum króna. Ef ekki verður orðið við kröfum þeirra verði hins vegar farið í hart eins og gert hafi verið annars staðar á Norðurlöndunum.
Frétt mbl.is: Kínverskum eftirlíkingum fargað