Maður sem lést úr lifrarkrabbameini fyrr á þessu ári eyddi á annarri milljón króna í lyfið Orasal sem sýnt hefur verið fram á að hefur ekki áhrif á krabbamein áður en yfir lauk. Sonur hans er ósáttur við sölumann lyfsins en hann sendi meðal annars röntgenmyndir föður hans til Bandaríkjanna til greiningar og segir hann féfletta fárveikt fólk.
Guðmundur Jóhann Hallvarðsson greindist með krabbamein í lifur í janúar árið 2013 og dró sjúkdómurinn hann til dauða í mars á þessu ári. Að sögn sonar hans, Hallvarðs Jóns Guðmundssonar, virkuðu lyfin sem faðir hans fékk frá læknum ekki vel á krabbameinið. Þegar um þrír mánuðir voru liðnir af lyfjameðferðinni var ákveðið að hætta henni þar sem ekkert benti til þess að hún gerði honum gagn.
„Foreldrar mínir voru tíðir gestir í Krabbameinsfélaginu og kynntust þar öðrum sjúklingum, þar á meðal konu sem hafði læknast af sínu krabbameini og hafði verið að taka inn þetta óhefðbundna lyf sem heitir Orasal, sem er töflubundna formið af salicinium. Pabbi vildi bara prófa þetta. Honum fannst að það sakaði ekki að prófa,“ segir Hallvarður sem birti í dag harðorðan pistil á Facebook-síðu sinni sem ber titilinn „Snákaolían“.
Konan lét Guðmund fá símanúmer sölumanns efnisins hér á landi sem hóf í framhaldinu að selja honum Orasal. Hallvarður segir að læknir föður síns hafi reynt að vera nærgætinn hvað varðaði óhefðbundnu meðferðina. Hann hafi sagt að sér fyndist hún í lagi en benti á að ekkert benti til þess að hún virkaði. Það varð og raunin fyrir Guðmund.
„Í hvert einasta skipti sem hann fór til læknis heyrðum við alltaf að ástandið væri að versna,“ segir Hallvarður.
Orasal-lyfið var þó langt því frá gefins. Mánaðarskammturinn sem Guðmundur keypti af sölumanninum kostaði 130.000 krónur. Inn í þeirri upphæð voru tvær aðrar tegundir fæðubótaefna sem sölumaðurinn mælti með að hann tæki með Orasal. Allar voru töflurnar frá sama bandaríska fyrirtækinu, Perfect Balance.
Hallvarður segir þó að einn mánuðinn hafi faðir sinn fengið lyfið á hálfvirði. Þá hafði annar neytandi þess fallið frá og gat hann þá fengið skammtinn hans á afslætti. Þrátt fyrir að efnið virtist ekki hafa neina virkni fyrir Guðmund fullyrti sölumaðurinn að hann þyrfti að halda áfram að taka það inn.
„Sölumaðurinn var að senda röntgenmyndir til sölufyrirtækisins í Bandaríkjunum, Perfect Balance. Hann hafði þær upplýsingar þaðan að fagaðili hafi sagt að hann þyrfti að halda áfram að taka lyfið af því að þeir sæju á röntgenmyndunum að það hefði áhrif. Þegar ég spurði sölumanninn hvort að það væri hægt að fá staðfestingar á því að fagaðili skoðaði myndirnar þá gat hann ekki svarað því,“ segir Hallvarður.
Spurður að því hvort hann telji að faðir hans hafi trúað á virkni lyfsins segir Hallvarður að hann hafi örugglega gert það fyrst um sinn. Ef eitthvað jákvætt mætti segja um Orasal þá væri það möguleg lyfleysuáhrif sem það hefði haft til batnaðar. Hins vegar hafi faðir hans verið hættur að taka lyfið undir lokin.
„Það var alls konar annað sem fylgdi. Þú þurfti að gera líkamann basískan, breyta sýrustiginu í líkamanum. Samkvæmt mínum upplýsingum er það ekki hægt. Það þurfti að drekka einhverja sérstaka drykki og breyta mataræðina. Undir rest var pabbi bara hættur að nenna þessu,“ segir Hallvarður.
Þá telst honum þó til að Guðmundur hafi keypt lyfið í níu mánuði og hann hafi því eytt rúmri 1,1 milljón króna í það, sé reiknað með helmingsafslættinum sem hann fékk vegna fráfalls annars neytanda þess einn mánuðinn.
Á vefsíðu bandaríska fyrirtækisins Perfect Balance segir um Orasal að það innihaldi sameindina salicinium. Mælt sé með notkun þess gegn öllum sjúkdómum sem stafa af loftfælnum eða gerjandi frumum. Efnið trufli gerjunina sem geri ónæmiskerfinu kleift að eyða sýktum frumum. Þar eru 45 skammtar af lyfinu seldir á 250 dollara, jafnvirði rúmlega 31.000 króna.
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur lyfið þó enga virkni gegn krabbameini. Talsmenn þess hafi vísað til rannsókna og reynslu sjúklinga sem hafi tekið það inn en þeir hafa síðan hafnað því að afhenda gögn og rannsóknir um það.
Þegar Hallvarður spurði íslenska sölumanninn nánar út í lyfið vísaði hann honum meðal annars á grein sem lýsti ágæti þess. Greinin var þó ekki ritrýnd og ekki skrifuð af lækni, heldur hómópata. Einnig benti hann Hallvarði á „heimildamynd“ á Youtube sem nefnist á íslensku „Krabbamein: forboðnu lækningarnar“. Þar er meðal annars lýst meintum góðum áhrifum matarsóda gegn krabbameini.
Hallvarður segist halda að sölumaðurinn sjálfur sem seldi föður hans Orasal trúi því að efnið sé allra meina bót og hann sé ekki vísvitandi að plata fólk. Það komi hins vegar niður á sama stað þegar á botninn er hvolft.
„Mér ofbýður það að þessum manni finnist þetta bara allt í lagi að féfletta fárveikt fólk. Ég er pirraður og reiður yfir þessu. Það sem hefur líka valdið gremju hjá mér er að það er svo lítið til um þetta tiltekna lyf á netinu. Ef einhverjir aðrir í sömu stöðu sem eru með krabbamein heyra af þessum manni og þessu efni sem hann er að selja, ef þeir gúggla þetta finna þeir ekki neitt. Þeir finna nokkrar sögur fólks sem segist hafa farið á þetta og krabbameinið þeirra hafi farið á fimm mánuðum eða eitthvað slíkt. Þegar ég skrifaði pistilinn vildi ég að það væri þó eitthvað um þetta sem væri frá annarri heimild en þeim sem eru að selja þetta,“ segir Hallvarður.