Heiða Kristín Helgadóttir hefur tekið ákvörðun um að láta af stjórnarformennsku í Bjartri framtíð í upphafi nýs árs og hvíla dagleg afskipti af stjórnmálum um sinn. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar á samfélagsmiðlinum Facebook.
Heiða segist á síðastliðnum fimm árum átt þeirri gæfu að fagna að eiga stóran þátt í því að búa til tvo stönduga stjórnmálaflokka, Besta flokkinn og Bjarta framtíð. Þannig hafi hún stuðlað að tímabærum breytingum sem hún vonar að munu hafa jákvæð áhrif til lengri tíma. „Á þessum tímapunkti finnst mér rétt að sleppa takinu, hleypa öðrum að og freista þess að hafa áhrif á samfélagið með öðrum hætti. Ég hef tekið ákvörðun um að láta af stjórnarformennsku í Bjartri framtíð í upphafi nýs árs og hvíla dagleg afskipti af stjórnmálum um sinn.
Ég er sátt og stolt af því sem ég hef áorkað, en á sama tíma meðvituð um að þörfin fyrir að opna samfélagið upp og færa það nær nútímanum er ótvíræð. Ég hlakka til að takast á við það verkefni frá nýjum sjónarhól á komandi árum,“ segir hún í yfirlýsingunni.