Þriðja umræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er nú hafin á Alþingi og er það síðasti dagskrárliður yfirstandandi þingfundar. Eins og mbl.is hafði eftir Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, í morgun er stefnt að því að þingið fari í jólafrí í dag.
Fyrr í dag voru frumvörp ríkisstjórnarinnar um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins og breytingar á virðisaukaskatti samþykkt en síðarnefnda frumvarpið hefur verið mjög í umræðunni undanfarnar vikur vegna hækkunar á neðra skattþrepi virðisaukaskattsins. Þrepið var áður 7% en fer í 11% með breytingunum en matvörur falla meðal annars undir neðsta þrepið. Upphaflega stóð til að það yrði 12%.
Stjórnvöld hafa bent á að afnám vörugjalda vegi meðal annars á móti, meðal annars á ýmsar matvörur, auk þess sem efsta virðisaukaskattsþrepið var lækkað.