Frávísunarkröfum í Marple-málinu hafnað

Hörður Felix Harðarson og Hreiðar Már Sigurðsson, skjólstæðingur hans.
Hörður Felix Harðarson og Hreiðar Már Sigurðsson, skjólstæðingur hans. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun kröfum verjenda í Marple-málinu svonefnda. Tvær kröfur voru gerðar um frávísun málsins frá dómi og einnig var gerð krafa um að tiltekin gögn yrðu ekki lögð fram. Aðeins er hægt að kæra til Hæstaréttar þann þátt málsins sem snýr að gögnunum.

Í Marple-málinu eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, er ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum Hreiðars Más og Guðnýjar Örnu og Skúli Þorvaldsson er ákærður fyrir hylmingu.

Auk þess er krafist upptöku fjár hjá félögunum Marple Hold­ing S.A. SPF, BM Trust S.A. SPF, Holt Hold­ing S.A., SKLux S.A. og Legat­um Ltd. Öll eru fé­lög­in með lög­heim­ili í Lúx­em­borg fyrir utan Legat­um sem er með lög­heim­ili á Möltu.

Engin viðskipti á Íslandi

Verjendur Skúla og fjögurra af fimm félögum kröfðust þess að málinu yrði vísað frá, meðal annars af þeirri ástæðu að íslenskir dómstólar hafi ekki lögsögu í málinu. Félögin séu erlend og hafi engin tengsl á grundvelli lögsögureglna við Ísland og þau séu ekki sökuð um að hafa brotið af sér.

Þá hafi Skúli ekki átt í neinum viðskiptum við Kaupþing á Íslandi. Það sem gerst hafi eftir að fjármunir komu til Kaupþings í Lúxemborg - ef þeir tengdust Skúla - gerðust aðeins þar og þurfi að byggja á því að hann hafi framið brot gegn lögum þess lands þar sem meint brot eru sögð hafa verið framin.

Sem áður segir hafnaði héraðsdómur öllum kröfum. Ekki er hægt að kæra úrskurðinn er varðar frávísunarkröfurnar og tók verjandi sér lögmæltan kærufrest er varðar rannsóknargögnin.

Frétt mbl.is: Íslensk lög nái ekki yfir viðskiptin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert