Ekkert hefur spurst til tvítugs Íslendings í Danmörku, Þorleifs Kristínarsonar, síðan á laugardagsmorgun. Samkvæmt frétt nordjyske.dk var hann í heimsókn í Frederikshavn á Norður-Jótlandi um helgina og sást síðast til hans á krá þar í bæ á laugardaginn klukkan 6:20.
Vísir sagði frá málinu fyrr í kvöld.
Samkvæmt frétt nordjyske.dk halda vitni því fram að hann hafi verið á leið til vinar síns. Ekkert hefur spurst til hans síðan fyrir utan krána og er slökkt á farsíma hans. Jafnframt stendur bíll hans ósnertur síðan á laugardag.
nordjyske.dk vitnar í Lars Jensen, yfirmann rannsóknarinnar, sem segir að lítið sé um ábendingar um hvar Þorleifur gæti verið niðurkominn.
„Einn sagðist hafa séð hann í kringum heimili móður hans og annar segist hafa séð hann í matvöruverslun á sunnudaginn,“ segir Jensen en bætir við að þessar ábendingar hafi engu skilað.
Á öryggismyndavélum kráarinnar sést Þorleifur yfirgefa staðinn og ganga í austur, í átt að höfninni. Að sögn Jensens er notast við leitarhunda og er nú reynt að finna Þorleif eða einhverjar eigur hans.
Í frétt Avisen um málið kemur fram að Þorleifur sé blindur á öðru auga og með augnsjúkdóm. Hann þarf að taka inn lyf með reglulegu millibili og óttast fjölskylda hans að hann sé ekki með þau á sér.
Þorleifur var klæddur dökkum fötum og með svarta derhúfu þegar hann hvarf.