Stefnt er að því að þingfundum Alþingis ljúki í dag fyrir jólaleyfi. Þriðja og síðasta umræða fjárlagafrumvarpsins fer fram og væntanlega atkvæðagreiðsla í framhaldinu.
Þá fer fram atkvæðagreiðsla um frumvarp um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins og breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Einnig verður tekið fyrir í dag frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar þar sem lagt er til að 34 einstaklingar fái íslenskan ríkisborgararétt.
„Ég get auðvitað ekki fullyrt það en ég tel að það séu allar forsendur til þess að ljúka þinginu í dag. En eins og fyrri daginn er alltaf ákveðin óvissa um það hvað gerist á síðustu metrunum og það er nákvæmlega staðan núna,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is.
Þingfundir hafa staðið fram á kvöld að undanförnu til þess að klára þau mál sem samkomulag er um að afgreiða. Þannig stóð þingfundur í gærkvöldi til klukkan hálf eitt.