Björgunarsveitir fluttu skólabörn

Hér má sjá eru björgunarsveitarbílar ferja börnin sem voru í …
Hér má sjá eru björgunarsveitarbílar ferja börnin sem voru í skólahúsnæðinu í Ólafsfirði. Héðinsfjörður í baksýn. Mynd/Sigurður Ægisson

Björgunarsveitir þurftu að ferja skólabörn á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar í dag vegna veðurs. Um hádegi í dag skall á mikill bylur sem er að ganga niður núna.

„Veðrið er að lagast hérna í bænum og líka á Ólafsfirði. En það er mjög hvasst á milli og ennþá mjög vont veður,“ segir Ríkey Sigurbjörnsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar.

Skólinn starfar bæði í Ólafsfirði og Siglufirði og þurfti að ferja börn þar á milli eftir hádegi. 

„Síðasti björgunarsveitarbíllinn fór um fjögurleytið með börn til Ólafsfjarðar, en björgunarsveitir á Siglufirði og Ólafsfirði hjálpuðust að með þetta,“ segir Ríkey og bætir við að farið hafi verið á milli á átta bílum í dag. 

Að sögn Ríkeyjar er þetta í fyrsta skipti sem þurft hefur að fá björgunarsveitir til þess að aðstoða við skólaakstur í Fjallabyggð. 

Skólarútan, sem sér vanalega um að fara með börnin, gat keyrt í morgun og var þá ágætis færð. Ríkey telur að eðlilegur skólaakstur verði á morgun. „Ég held að þetta sé að ganga niður núna og það verði bara blíða á morgun.“

Einar Áki Valsson, meðlimur í björgunarsveitinni Strákar í Siglufirði segir að mikið hafi verið að gera hjá sveitinni í dag. „Við vonum að þetta sé búið núna, okkar bílar eru allir komnir í hús.“ Ásamt því að keyra börn á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar hafa meðlimir sveitarinnar verið að losa fasta bíla í Héðinsfirði. Áki telur að sveitin hafi losað um tíu bíla í Héðinsfirði í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert