„Við munum fara yfir forsendur dómsins og skoða með hvaða rökstuðningi dómurinn kemst að þessari niðurstöðu,“ segir Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, um sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur í Milestone-málinu svonefnda.
Ákvörðun um áfrýjun dómsins er í hendi ríkissaksóknara og eftir því sem Ólafur best veit þá liggur ákvörðun um áfrýjun ekki fyrir.
Eins og fram hefur komið á mbl.is í dag þá sýknaði héraðsdómur Guðmund Ólason, fv. forstjóra Milestone, Karl, fv. stjórnarformann, og Steingrím, fv. stjórnarmann, af ákæru um umboðssvik vegna greiðslna Milestone til Ingunnar Wernersdóttur fyrir hluti hennar í Milestone, Milestone Import Export og Leiftra en þær námu á sjötta milljarð króna á árunum 2006 og 2007.
Jafnframt voru endurskoðendurnir Hrafnhildur Fanngeirsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson, öll frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, sýknuð af ákæru um brot gegn lögum um endurskoðendur. Þau Margrét og Sigurþór voru ennfremur sýknuð af ákæru um meiriháttar brot á lögum um ársreikninga vegna viðskiptanna.