Gátu ekki sinnt öllum vegna færðar

Nokkuð var um að bílar væru skildir eftir í gær
Nokkuð var um að bílar væru skildir eftir í gær mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Á fjórða tug ökumanna höfðu samband við fyrirtækið Árekstur í gær og óskuðu eftir aðstoð eftir að hafa lent í umferðaróhappi á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki reyndist unnt að sinna öllum útköllunum vegna færðar en einn af bílum fyrirtækisins sat fastur á Reykjanesbraut í tvær klukkustundir í gær þegar hún var stífluð frá Kópavogi og í gegnum Hafnarfjörð.

Útköllin af ýmsum toga

Minna hefur verið að gera í morgun en þó bárust fimmtán beiðni um aðstoð fyrir hádegi. Útköll gærdagsins voru af ýmsum toga en mikið var um aftanákeyrslur vegna slæms skyggnis og rákust bílar meðal annars saman á gatnamótum.

Þegar veðrið var sem verst í gær á milli kl. 12 og 16 voru þeir sem höfðu samband við fyrirtækið beðnir um að taka myndir af vettvangi og safna viðeigandi upplýsingum. Starfsfólk Áreksturs.is mun hitta ökumennina eftir hádegi í dag og aðstoða þá við að fylla út tjónaskýrslur og mynda bifreiðar.

Margir skildu bílana eftir

Samkvæmt upplýsingum frá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var nokkuð um að bílar væru skildir eftir í gær. Hringja þurfti í skráða eigendur bifreiðanna og þeir beðnir um að færa ökutækin. 

Flestir brugðust fljótt við en ef ekki náðist í eigendur voru bifreiðarnar fluttar burt á kostnað eigenda svo hægt væri að moka götur. Flytja þurfti hátt í tíu bifreiðar. 

„Ég veit ekki hvernig við færum að ef við hefðum ekki þetta fólk,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildarinnar, um störf björgunarsveitanna. Margir þurftu á hjálp þeirra að halda og þá tóku þeir einnig þátt í leit að karlmanni í gærkvöldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert