Þorleifur Kristínarson, sem leitað hefur verið í Fredrikshavn í Danmörku, er talinn látinn.
Þorleifur, sem er tvítugur og búsettur í bænum Nykøbing Mors, var í heimsókn hjá vinum sínum í Frederikshavn á Norður-Jótlandi um helgina og sást síðast til hans á krá þar í bæ á laugardaginn klukkan 6:20.
Lögreglufulltrúinn Lars Jensen, sem hefur yfirumsjón með rannsókn málsins, segir að á öryggismyndavélum hafi sést að Þorleifur gekk í austur í átt að höfn Fredrikshavn þegar hann yfirgaf krána, einn síns liðs.
Rannsókn á efni úr öryggismyndavélum við höfnina hefur síðan leitt í ljós að stuttu síðar hafi maður, mjög áþekkur Þorleifi í útliti, klifrað þar yfir öryggisgirðingu.
Jensen segir fjölskylduna hafa verið upplýsta um framgang rannsóknarinnar. Nú sé leitað í sjónum við höfnina og að ekki sé talið að Þorleifur finnist á lífi.
Jensen segir skilyrði til leitarinnar slæm. Mikil umferð skipa og báta er við höfnina sem er stór og vegna hafstrauma er erfitt að áætla hvar best sé að leita. Leit verður þó haldið áfram í dag og á morgun.
Leitað að Íslendingi í Danmörku