Sýknudómur yfir Karli Wernerssyni og öðrum í Milestone-málinu svonefnda er í samræmi við væntingar hans og er hann afar ánægður með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Þetta segir Ólafur Eiríksson, verjandi Karls, og einnig að hann voni að ríkissaksóknari uni niðurstöðunni.
Ólafur segir að dómurinn rökstyðji niðurstöðu sína mjög vel, meðal annars með vísun til sérfróðra matsmanna sem sátu í fjölskipuðum héraðsdóminum. „Að teknu tilliti til þess alls gerir Karl sér vonir um að dómnum verði ekki áfrýjað, að ákæruvaldið uni niðurstöðunni.“
Héraðsdómur sýknaði Guðmund Ólason, fv. forstjóra Milestone, Karl, fv. stjórnarformann, og Steingrím, fv. stjórnarmann, af ákæru um umboðssvik vegna greiðslna Milestone til Ingunnar Wernersdóttur fyrir hluti hennar í Milestone, Milestone Import Export og Leiftra en þær námu á sjötta milljarð króna á árunum 2006 og 2007.
Jafnframt voru endurskoðendurnir Hrafnhildur Fanngeirsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson, öll frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, sýknuð af ákæru um brot gegn lögum um endurskoðendur. Þau Margrét og Sigurþór voru ennfremur sýknuð af ákæru um meiriháttar brot á lögum um ársreikninga vegna viðskiptanna.
Samkvæmt því sem kemur fram í niðurstöðu héraðsdóms er að eigendur og stjórnendur Milestone höfðu fulla heimild til að láta félagið fjármagna kaupin á hlutum Ingunnar, það hafi ekki valdið félaginu verulegri fjártjónshættu og endurheimt fjárins ekki verið ótryggð.
„Mér sýnist sem héraðsdómur hafi metið það sem svo að þær varnir sem verjendur komu fram með hafi verið eðlilegar og í samræmi við málavexti,“ segir Ólafur um dóminn.