Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað alla sakborninga í Milestone-málinu svonefnda af kröfum sérstaks saksóknara. Ákært var í málinu vegna greiðslna til Ingunnar Wernersdóttur fyrir hluti hennar í Milestone.
Þetta kemur fram á vefsvæði Viðskiptablaðsins. Í málinu voru Guðmundur Ólason, fv. forstjóri Milestone, Karl, fv. stjórnarformaður, og Steingrímur Wernerson, fv. stjórnarmaður, ákærðir vegna greiðslna til Ingunnar Wernersdóttur fyrir hluti hennar í Milestone, Milestone Import Export og Leiftra en þær námu á sjötta milljarð króna á árunum 2006 og 2007.
Jafnframt voru endurskoðendurnir Hrafnhildur Fanngeirsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson, öll frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, ákærð fyrir brot gegn lögum um endurskoðendur. Þau Margrét og Sigurþór voru ennfremur ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga vegna viðskiptanna.
Dómurinn hefur ekki verið birtur en ljóst að héraðsdómur hefur fallist á röksemdir verjenda í málinu. Ákæruvaldið fór fram á að dómurinn sakfelldi alla ákærðu og liti til Exeter-málsins eftir hæfilegri refsingu fyrir fyrrverandi starfsmenn Milestone. Í því máli voru ákærðu dæmdir í 4 ára og 6 mánaða fangelsi. Þá var farið fram á óskilorðsbundna refsingu yfir endurskoðendunum og að þeir yrðu sviptir réttindum sínum.
Eins og farið hefur með flest mál sérstaks saksóknara verður dóminum eflaust áfrýjað til Hæstaréttar.