„Það er verið að plata fólk“

Magnús Jóhannsson, læknir og prófessor í lyfjafræði.
Magnús Jóhannsson, læknir og prófessor í lyfjafræði. SteinarH

Embætti landlæknis berast fáar ábendingar um gervilyf á borð við efnið salicinium sem beint hefur verið að krabbameinssjúklingum. Magnús Jóhannsson, læknir hjá embættinu, segir hins vegar mikið framboð af slíkum hjálækningum. Ekki þurfi meira til en að fletta fylgiblöðum dagblaða til að finna auglýsingar um slíkt.

Magnús segir umræðu hafa staðið um salicinium í mörg ár og þekkt sé að ekkert sé á bak við fullyrðingar um virkni þess. Eins og sagt hefur verið frá hér á mbl.is í vikunni hefur að minnsta kosti einn íslenskur aðili selt krabbameinssjúklingum efnið og fylgiefni á yfir hundrað þúsund krónur á mánuði. Prófessor og yfirlæknir krabbameinsdeildar Landspítalans segir efnið algert falslyf

„Það er ótrúlega mikið svona til. Þetta salicinium, það er verið að plata fólk með því. Það er vitað. Þarna er verið að plata fólk og telja því trú um að þetta geri eitthvað sem það gerir ekki. Það er fullt af svona. Það er enginn endir á vitleysunni,“ segir hann.

Landlæknisembættið hefur ekki farið mikið út í að skipta sér að þeim sem selja gervilyf á borð við salicinium og Magnús segir að ekki berist margar tilkynningar um slíkt. Lítillega hafi verið rætt innan embættisins að taka á þessum málum en það sé þó nær því að vera á verksviði Neytendastofu þar sem þarna sé verið að blekkja neytendur.

„Þú þarft í rauninni ekki annað en að skoða þessi fylgiblöð sem eru með Fréttablaðinu. Það lítur út eins og fréttir en eru auglýsingar eins og þetta sem heitir „Fólk“. Þar er ekkert nema svona rugl meira eða minna þannig að þetta veður uppi,“ segir Magnús.

Fyrri fréttir mbl.is:

Féfletti krabbameinssjúkling

„Loddaraskapur af verstu gerð“

Fæðubótarefnið Orasal, sem inniheldur salicinium, er selt fyrir 250 dollara, …
Fæðubótarefnið Orasal, sem inniheldur salicinium, er selt fyrir 250 dollara, jafnvirði ríflega 31.000 króna, í níutíu hylkja pakkningum á vefsíðu bandaríska fyrirtækisins Perfect Balance. Það eru 45 skammtar. Af vef Perfect Balance
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert