Átta björgunarsveitarmenn á þremur sérútbúnum bílum þurftu að sækja farþega tveggja bifreiða á Öxnadalsheiði í nótt en ferðafólkið hafði virt að vettugi allar merkingar og tilkynningar um að heiðin væri ófær.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri voru ferðamennirnir átta talsins á tveimur bílum sem sátu fastir í Bakkaselsbrekkunni en Öxnadalsheiðin var kolófær í gærkvöldi og nótt.
Beiðni um aðstoð barst um eittleytið í nótt og þar sem þriggja ára gamalt barn var meðal farþega í öðrum bílnum þótti ekki annað hægt en að bjarga fólkinu og kalla út fjölmennt lið björgunarsveitarfólks þrátt fyrir að ferðalangarnir hafi látið sem vind um eyru þjóta allar merkingar um að leiðin væri ófær og lokuð.
Tilkynning frá Vegagerðinni í gærkvöldi:
Það er snjóþekja og hálka á flestum vegum á Norðurlandi en flughálka er í Langadal og frá Sauðárkrók að Hófsósi. Þæfingsfærð og stórhríð er á Skagastrandarvegi. Ófært og stórhríð er á Þverárfjalli og á Vatnsskarði og lokað á Öxnadalsheiði. Ófært og óveður er á Fljótsheiði. Snjóþekja og stórhríð er á Víkurskarði. Vegurinn um Dalsmynni er lokaður. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Hófaskarði. Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum einnig á Vopnafjarðarheiði.