Bakki með snjókomu kemur inn á norðanvert landið nú skömmu fyrir hádegi. Um leið hvessir af norðri og reikna má með skafrenningi og víða lélegu skyggni, allt frá Ströndum og Hrútafirði, austur um á Vopnafjörð að telja. Lægir mikið og rofar aftur til undir kvöldið, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.
„Athygli er vakin á versnandi veðri fyrir hádegi í dag á N-verðu landinu með allhvassri norðanátt og snjókomu. Búast má við að færð spillist hratt á þeim slóðum. Lægir og styttir upp að mestu í kvöld. Suðaustanátt með úrkomu og hlýnar á morgun,“ samkvæmt viðvörun á vef Veðurstofu Íslands.
Vegurinn um Súðavíkurhlíð er opinn en þar er en snjóflóðahætta og vegfarendur eru beðnir um að vera ekki á ferð að nauðsynjalausu.
Það er hálka og snjóþekja á flestum vegum á Suðurlandi en hálkublettir og hálka á Suðvesturlandi.
Snjóþekja eða hálka er einnig á flestum vegum á Vesturlandi en þungfært er um Bröttubrekku.
Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja. Þæfingur er í Ísafjarðardjúpi í Ögur en þungfært þaðan í Súðavík. Þæfingur er á Ennishálsi í Bitrufjörð. Þungfært er úr Bjarnarfirði og norður í Gjögur.
Snjóþekja eða hálka er á Norðurlandi og víða nokkur éljagangur.
Á Austur- og Suðausturlandi er hálka.