Þess er í dag minnst að 40 ár eru í dag liðin frá snjóflóðunum sem féllu niður yfir byggðina í Neskaupstað. Tólf manns fórust í snjóflóðunum.
Dagana á undan hafði illviðri af norðnorðaustri með miklu fannfergi gengið yfir landið. Hinn 19. desember féll snjóflóð á Siglufirði, þar sem íbúðarhús gereyðilagðist en engan sakaði, og í Seyðisfirði rústaði snjóflóð gripahús.
Daginn eftir féll fjöldi snjóflóða úr fjallinu ofan Neskaupstaðar, þar af tvö langt út á fjörðinn. Þetta gerðist milli kl. 13.30 og 14.00 og urðu bæði þessi flóð mannskæð. Hið fyrra, um 400 metra breitt, kom fá efstu fjallsbrún vestan íbúðabyggðar og skall á fiskvinnsluhúsi SÚN, stórri síldarbræðslu SVN og birgðageymslu vestan við hana. Þetta flóð tók fimm mannslíf og var mikið lán í óláni að ekki var unnið í fiskvinnslu þennan föstudag, en dagana á undan var á annað hundrað manns þar að störfum.
Ytra flóðið féll um 20 mínútum síðar ofan frá Miðstrandarskarði og reyndist um 150 metra breitt við ströndina. Fórust í því alls sjö manns. Það hreif með sér bílaverkstæði, steypustöð og íbúðarhús innst við Urðarteig. Í íbúðahúsinu fórust fjórir en smábarn bjargaðist. Þá fórst maður sem stóð við jarðýtu sína og var að hella á hana olíu. Bæði vinnuvélin og maðurinn bárust út í sjó og fundust aldrei, né heldur lík manns sem ók rútu eftir aðalgötunni þegar flóðið geystist niður.
Hvernig sumir björguðust úr flóðinu eða voru staddir á réttum stað á réttum tíma þótti jarteiknum líkast. Einstætt þótti hvernig nítján ára piltur, Árni Þorsteinsson, bjargaðist. Hann grófst undir snjó og braki lokaður af niðri í þró neðan frystihússins og fannst ekki fyrr en eftir 20 tíma leit. Hann var þá lerkaður, en vel á sig kominn eftir atvikum. Fjöldi björgunarmanna, einnig úr nágrannabyggðum, kom að leit og björgunaraðgerðum í Neskaupstað, sem þóttu takast vel.
Eignatjón af völdum snjóflóðanna var mikið; fiskvinnsluhúsið ásamt tækjasal stórskemmdist, síldarbræðslan gjöreyðilagðist svo og birgðageymsla. Stór olíutankur fór af grunni og sprakk og olli mengun frá honum erfiðleikum við björgunarstörfin. Uppbygging eftir þessa atburði tók langan tíma. Slíkt var þó hjóm eitt í samanburði við að 12 manns létust í snjóflóðinu og voru þeir tíu sem fundust jarðsungnir við látlausa og virðulega athöfn í félagsheimilinu Egilsbúð 30. desember.
„Hér verður ekki haldin löng ræða enda ekki ástæða til. Hér þarf ekki að sýna neinum fram á neitt, náttúruöflin eru búin að því,“ sagði sóknarpresturinn séra Páll Þórðarson í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu á gamlársdag 1974 og bætti við: „Við horfum inn í lönd framtíðarinnar tárvotum augum. Við munum ekki gefast upp.“ Það gekk eftir því Norðfirðingar þóttu sýndu órofa samstöðu við þessa atburði og við björgunar- og endurreisnarstörf í kjölfarið.
Í Neskaupstað verður í dag, kl 15, kyrrðarstund í Norðfjarðarkirkju. Í framhaldinu er opið hús í Egilsbúð í boði Fjarðabyggðar. Þar mun Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar flytja ávarp og eins verður þar hluti ljósmyndasýningarinnar Flóðið til sýnis. Þá munu gestir geta skoðað uppdrætti að minningarreit sem opnaður verður almenningi á næsta ári.Er eitnum komið upp til minningar um þá sem látið hafa lífið í snjóflóðum á Norðfirði.
Síðasta áratuginn eða svo hefur verið unnið að snjóflóðavörum í Neskaupstað, byggingu varnagarða og varnargrinda. Slík mannvirki hafa verið reist í Drangagili og nú síðast Tröllagili. Kostnaður við framkvæmdir þessar er vel á annan milljarð kr.
Á næstu misserum þarf að fara í frekari framkvæmdir í Neskaupstað, að sögn Hafsteins Pálssonar sem hefur umsjón með málefnum Ofanflóðasjóðs sem vistaður er í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Koma þarf upp varnarmannvirkjum neðan við Nes- og Bakkagil og Urðarbotna, sem eru í fjallshlíðinni upp af byggðinni í Neskaupstað. Að sögn Hafsteins er unnið að frumhönnun varnarmannvirkja á þessum stöðum, en frekari hönnun þeirra, mat á umhverfisáhrifum og gerð útboðsgagna bíða. Þykir því raunhæft að framkvæmdir á nefndum stöðum geti kannski hafist innan tveggja til þriggja ára ef fjárheimildir leyfa.
Þau Jóna Sigríður og Þórarinn Ölvirsson eiginmaður hennar voru þegar þetta gerðist nýlega flutt í hús sitt við Víðimýri. Það, eins og önnur hús í Neskaupstað, stendur undir hárri fjallshlíð og er því strangt til tekið á hættusvæði snjóflóða, sem þó er helst innarlega í bænum þar sem flóðin miklu fyrir fjörutíu árum féllu.
„Nei, ég varð svo sem ekki hrædd eftir snjóflóðin en hugsun og viðhorf breyttust. Ég var þegar þetta gerðist, í desember 1974, langt gengin með yngstu dóttur mína sem fæddist svo í janúar og á þessum lokavikum meðgöngunnar var ég kannski umfram venju meyr og viðkvæm. Og þótt lífið hafi haldið áfram og fundið sér farveg að nýju settist eitthvað í undirmeðvitund mína og annarra með þessu. Snjóflóðin á Vestfjörðum rifjuðu margt upp og ýfðu sár sem gróa seint,“ segir Jóna Sigríður sem kveðst aldrei hafa treyst sér til að lesa frásagnir, til dæmis í bókum, af þessum hamförum.