Snjóflóðin tóku 12 mannslíf

Síldarverksmiðjan á Neskaupsstað eyðilagðist í snjóflóðinu.
Síldarverksmiðjan á Neskaupsstað eyðilagðist í snjóflóðinu. Ljósmynd/Hjörleifur Guttormsson

Þess er í dag minnst að 40 ár eru í dag liðin frá snjóflóðunum sem féllu niður yfir byggðina í Nes­kaupstað. Tólf manns fór­ust í snjóflóðunum.

Dag­ana á und­an hafði ill­viðri af norðnorðaustri með miklu fann­fergi gengið yfir landið. Hinn 19. des­em­ber féll snjóflóð á Sigluf­irði, þar sem íbúðar­hús gereyðilagðist en eng­an sakaði, og í Seyðis­firði rústaði snjóflóð gripa­hús.

Tutt­ugu mín­út­ur milli flóðanna tveggja

Dag­inn eft­ir féll fjöldi snjóflóða úr fjall­inu ofan Nes­kaupstaðar, þar af tvö langt út á fjörðinn. Þetta gerðist milli kl. 13.30 og 14.00 og urðu bæði þessi flóð mann­skæð. Hið fyrra, um 400 metra breitt, kom fá efstu fjalls­brún vest­an íbúðabyggðar og skall á fisk­vinnslu­húsi SÚN, stórri síld­ar­bræðslu SVN og birgðageymslu vest­an við hana. Þetta flóð tók fimm manns­líf og var mikið lán í óláni að ekki var unnið í fisk­vinnslu þenn­an föstu­dag, en dag­ana á und­an var á annað hundrað manns þar að störf­um.

Ytra flóðið féll um 20 mín­út­um síðar ofan frá Miðstrand­ar­sk­arði og reynd­ist um 150 metra breitt við strönd­ina. Fór­ust í því alls sjö manns. Það hreif með sér bíla­verk­stæði, steypu­stöð og íbúðar­hús innst við Urðarteig. Í íbúðahús­inu fór­ust fjór­ir en smá­barn bjargaðist. Þá fórst maður sem stóð við jarðýtu sína og var að hella á hana olíu. Bæði vinnu­vél­in og maður­inn bár­ust út í sjó og fund­ust aldrei, né held­ur lík manns sem ók rútu eft­ir aðal­göt­unni þegar flóðið geyst­ist niður.

Fannst eft­ir 20 tíma leit

Hvernig sum­ir björguðust úr flóðinu eða voru stadd­ir á rétt­um stað á rétt­um tíma þótti jarteikn­um lík­ast. Ein­stætt þótti hvernig nítj­án ára pilt­ur, Árni Þor­steins­son, bjargaðist. Hann grófst und­ir snjó og braki lokaður af niðri í þró neðan frysti­húss­ins og fannst ekki fyrr en eft­ir 20 tíma leit. Hann var þá lerkaður, en vel á sig kom­inn eft­ir at­vik­um. Fjöldi björg­un­ar­manna, einnig úr ná­granna­byggðum, kom að leit og björg­un­araðgerðum í Nes­kaupstað, sem þóttu tak­ast vel.

Eigna­tjón af völd­um snjóflóðanna var mikið; fisk­vinnslu­húsið ásamt tækja­sal stór­skemmd­ist, síld­ar­bræðslan gjör­eyðilagðist svo og birgðageymsla. Stór ol­íu­tank­ur fór af grunni og sprakk og olli meng­un frá hon­um erfiðleik­um við björg­un­ar­störf­in. Upp­bygg­ing eft­ir þessa at­b­urði tók lang­an tíma. Slíkt var þó hjóm eitt í sam­an­b­urði við að 12 manns lét­ust í snjóflóðinu og voru þeir tíu sem fund­ust jarðsungn­ir við lát­lausa og virðulega at­höfn í fé­lags­heim­il­inu Eg­ils­búð 30. des­em­ber.

„Hér verður ekki hald­in löng ræða enda ekki ástæða til. Hér þarf ekki að sýna nein­um fram á neitt, nátt­úru­öfl­in eru búin að því,“ sagði sókn­ar­prest­ur­inn séra Páll Þórðar­son í viðtali sem birt­ist í Morg­un­blaðinu á gaml­árs­dag 1974 og bætti við: „Við horf­um inn í lönd framtíðar­inn­ar tár­vot­um aug­um. Við mun­um ekki gef­ast upp.“ Það gekk eft­ir því Norðfirðing­ar þóttu sýndu órofa sam­stöðu við þessa at­b­urði og við björg­un­ar- og end­ur­reisn­ar­störf í kjöl­farið.

Minn­ast þeirra sem lét­ust

Í dag, laug­ar­dag, kl. 17 verður ár­lega kyrrðar­stund á veg­um Norðfirðinga­fé­lags­ins í Fella- og Hóla­kirkju í Breiðholti í Reykja­vík þar sem þess verður minnst að 40 ár eru liðin frá snjóflóðunum í Nes­kaupstað. Séra Svavar Stef­áns­son stjórn­ar kyrrðar­stund­inni en jafn­framt verður tónlist flutt og Þor­leif­ur Ólafs­son flyt­ur minn­ing­ar sín­ar.

Kyrrðar­stund eystra

Í Nes­kaupstað verður í dag, kl 15, kyrrðar­stund í Norðfjarðar­kirkju. Í fram­hald­inu er opið hús í Eg­ils­búð í boði Fjarðabyggðar. Þar mun Jón Björn Há­kon­ar­son for­seti bæj­ar­stjórn­ar flytja ávarp og eins verður þar hluti ljós­mynda­sýn­ing­ar­inn­ar Flóðið til sýn­is. Þá munu gest­ir geta skoðað upp­drætti að minn­ing­ar­reit sem opnaður verður al­menn­ingi á næsta ári.Er eitn­um komið upp til minn­ing­ar um þá sem látið hafa lífið í snjóflóðum á Norðfirði.

Nes­gil og Urðar­botn­ar á dag­skrá

Bæj­ar­stjórn Nes­kauptaðar skipaði 1975 snjóflóðanefnd und­ir for­mennsku Hjör­leifs Gutt­orms­son­ar. Vann nefnd­in brautryðjendastarf við að kryfja at­b­urðina og leggja á ráð um varn­ar­virki. Það var hins veg­ar fyrst eft­ir snjóflóðin á Vest­fjörðum rösk­um 20 árum síðar að hið op­in­bera kerfi tók að ráði við sér.

Síðasta ára­tug­inn eða svo hef­ur verið unnið að snjóflóðavör­um í Nes­kaupstað, bygg­ingu varnag­arða og varn­ar­grinda. Slík mann­virki hafa verið reist í Drangagili og nú síðast Tröllagili. Kostnaður við fram­kvæmd­ir þess­ar er vel á ann­an millj­arð kr.

Á næstu miss­er­um þarf að fara í frek­ari fram­kvæmd­ir í Nes­kaupstað, að sögn Haf­steins Páls­son­ar sem hef­ur um­sjón með mál­efn­um Of­an­flóðasjóðs sem vistaður er í um­hverf­is- og auðlindaráðuneyt­inu. Koma þarf upp varn­ar­mann­virkj­um neðan við Nes- og Bakkagil og Urðar­botna, sem eru í fjalls­hlíðinni upp af byggðinni í Nes­kaupstað. Að sögn Haf­steins er unnið að frum­hönn­un varn­ar­mann­virkja á þess­um stöðum, en frek­ari hönn­un þeirra, mat á um­hverf­isáhrif­um og gerð útboðsgagna bíða. Þykir því raun­hæft að fram­kvæmd­ir á nefnd­um stöðum geti kannski haf­ist inn­an tveggja til þriggja ára ef fjár­heim­ild­ir leyfa.

Sár gróa seint

„Hér í Nes­kaupstað breytt­ist allt með þess­um at­b­urðum. Höggið var mikið. Marg­ir hér í bæn­um unnu aldrei svo vel væri úr þessu áfalli. Þar er ég eng­in und­an­tekn­ing, svo nærri mér hjó þetta,“ seg­ir Jóna Sig­ríður Gunn­ars­dótt­ir í Nes­kaupstað sem í snjóflóðinu missti mág­konu sína, Elsu Snæ­nýju Gísla­dótt­ur. „Elsa var líka besta vin­kona mín. Miss­ir­inn var því mik­ill, en mest­ur þó fyr­ir Gylfa bróður minn og Ástu Sigrúnu dótt­ur hans sem voru hér hjá okk­ur fyrstu dag­ana á eft­ir.“

Þau Jóna Sig­ríður og Þór­ar­inn Ölvirs­son eig­inmaður henn­ar voru þegar þetta gerðist ný­lega flutt í hús sitt við Víðimýri. Það, eins og önn­ur hús í Nes­kaupstað, stend­ur und­ir hárri fjalls­hlíð og er því strangt til tekið á hættu­svæði snjóflóða, sem þó er helst inn­ar­lega í bæn­um þar sem flóðin miklu fyr­ir fjöru­tíu árum féllu.

„Nei, ég varð svo sem ekki hrædd eft­ir snjóflóðin en hugs­un og viðhorf breytt­ust. Ég var þegar þetta gerðist, í des­em­ber 1974, langt geng­in með yngstu dótt­ur mína sem fædd­ist svo í janú­ar og á þess­um loka­vik­um meðgöng­unn­ar var ég kannski um­fram venju meyr og viðkvæm. Og þótt lífið hafi haldið áfram og fundið sér far­veg að nýju sett­ist eitt­hvað í und­irmeðvit­und mína og annarra með þessu. Snjóflóðin á Vest­fjörðum rifjuðu margt upp og ýfðu sár sem gróa seint,“ seg­ir Jóna Sig­ríður sem kveðst aldrei hafa treyst sér til að lesa frá­sagn­ir, til dæm­is í bók­um, af þess­um ham­förum.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert