Vatnselgur í höfuðborginni

Töluverð úrkoma hefur verið á höfuðborgarsvæðinu nú síðdegis og hafa borgar- og bæjarstarfsmenn verið önnum kafnir við að hreinsa niðurföll gatna. Mörg niðurföll eru nú hulin snjó sem leitt hefur til mikils vatnselgs sums staðar á götum úti.

Veður­stofa Íslands og Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins báðu fólk um að hreinsa frá niður­föll­um í dag vegna rigningarinnar sem nú er á höfuðborgarsvæðinu.

Að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu hefur lítið verið um útköll vegna leka til þessa. Þegar blaðamaður mbl.is hafði samband við vinnslu fréttarinnar var slökkviliðið á leið í fyrsta útkallið.

„Laust eftir klukkan fimm á hann að snúast í hægari sunnanátt. Einhverjar skúrir verða í kvöld sem breytast síðan í él í nótt,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofunni í samtali við mbl.is, og bætir við að rétt sé að vara fólk við klakamyndun á gangstígum og götum í nótt og á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert