Þakkantur féll á konu í Hafnarstræti

Frá Hafnarstræti
Frá Hafnarstræti Ómar Óskarsson

Þakkantur og bárujárnsbútar féllu á gangandi konu í Hafnarstræti í nótt. Hún slasaðist ekki alvarlega, en vitni segir það mikla mildi að ekki hafi farið verr. Landsbankinn er með starfsemi í húsinu, en leigir það af tveimur fasteignafélögum. Strax í morgun komu menn á vegum þeirra til að tryggja að svipað atvik kæmi ekki upp aftur.

Í samtali við mbl.is segir Elísabet Guðrúnardóttir að hún hafi verið stödd í Hafnarstrætinu þegar miklar drunur heyrðust. Þá hafi hún tekið eftir að töluvert fargan hafi fallið niður af þaki húsnæðisins við Hafnarstræti 5. Hópur fólks safnaðist þar fljótlega saman, en stúlka sem átt hafði leið um varð fyrir hluta fargsins.

„Þetta voru rosaleg þyngsli sem fara þarna á hana,“ segir Elísabet, en hún aðstoðaði konuna þangað til lögregla mætti á svæðið. „Stúlkan var í raun mjög heppin að hafa ekki slasast meira,” segir Elísabet og miðar þá við magnið sem féll niður. Segir hún að mun verr hefði getað farið ef konan hefði fengið allt farganið ofan á sig.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, staðfesti í samtali við mbl.is að þakkantur og þakrenna hafi fallið niður. Strax í nótt hafi verið haft samband við eigendur húsnæðisins sem hafi komið um morguninn til að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi vegfarenda og koma í veg fyrir frekara tjón á eigninni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var stúlkan með minniháttar meiðsl.

Elísabet segir óhugnanlegt að hlutir eins og þessir geti losnað á svona fjölförnum stöðum og minnir á að þessa dagana sé hvað mest umferð um miðbæinn. „Hvað getur gerst næst, þetta er frekar óhugnanlegt,“ segir hún og spyr hvort kantar og þök séu í lélegu ásigkomulagi á fleiri stöðum í miðbænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka