Hægt að staðfesta skuldalækkunina

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Þeir sem rétt eiga á lækkun höfuðstóls húsnæðisskulda geta nú farið inn á vefsíðuna www.leidretting.is og staðfest hana en opnað var fyrir staðfestinguna skömmu eftir hádegi í dag, en til þess þarf rafræn skilríki.

Fólk hefur þrjár mánuði til þess að samþykkja lækkunina eða til og með 23. mars 2015. Þeir sem ekki eru sáttir við útreikning lækkunar sinna húsnæðisskulda geta kært niðurstöðuna til sérstakrar úrskurðarnefndar.

„Fyrstu 15 mínúturnar fóru 200 umsóknir í gegn og það gekk allt upp eins og það átti að gera,“ segir Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri höfuðstólslækkunar húsnæðislána, í samtali við mbl.is en opnað var fyrir staðfestingu lækkunarinnar um klukkan 13:00 í dag. „Það eru alveg að hrúgast inn staðfestingar og það á væntanlega bara eftir að aukast þegar líður á daginn,“ segir hann.

Upphaflega var stefnt að því að hægt yrði að staðfesta lækkunina um miðjan þennan mánuð en það frestaðist um viku vegna tæknilegra mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert