„Það hefur einn og einn umsækjandi lent í hnökrum en síðast þegar ég vissi voru vel á fjórða hundrað búnir að samþykkja. Þannig að þetta er eitthvað tilfallandi,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri í samtali við mbl.is en borið hefur á því að umsækjendur um höfuðstólslækkun húsnæðislána hafa ekki getað samþykkt lækkunina á netinu. Opnað var fyrir samþykkt lækkunarinnar skömmu eftir hádegi í dag.
Skúli segir að kallaður hafi verið út mannskapur hjá Advania til þess að leysa úr þessum hnökrum. „En þetta gengur annars bara vel. Þetta fór bara strax af stað. Við vorum alveg hissa á því hvað margir voru strax búnir að samþykkja í ljósi þess að fólk hefur alveg þrjár mánuði til þess. Allavega tókst að uppfylla það að opnað væri fyrir samþykktarferlið á þessu ári.“
Skúli segir að vel yfir 40 þúsund manns hafi verið komnir með rafræn skilríki síðast þegar hann vissi en þau þarf til þess að samþykkja höfuðlækkunina. „Þannig að það virðist ekki vera hindrun að fólk sé ekki komið með rafræn skilríki. Við vorum aðeins hrædd við það í haust að það yrði hindrun. En þetta virðist ganga vel mínus þessir hnökrar sem verið er að skafa út og þeir munu örugglega finnast fljótt.“