Fastar á Íslandi yfir jólin

Útlit er fyrir að stúlkurnar tvær þurfi að fljúga alla …
Útlit er fyrir að stúlkurnar tvær þurfi að fljúga alla leið til Kína og þaðan til Bretlands.

Tvær kínverskar stúlkur sem staddar eru á Íslandi komast ekki til síns heima yfir jólin. Töskur sem geymdu vegabréf stúlknanna hurfu úr rútu þeirra skömmu fyrir jól og hafa ekki fundist síðan.

Stúlkurnar komu til landsins 19. desember síðastliðinn og áttu bókað flug aftur til Englands á Þorláksmessu. Þann 21. desember fóru stúlkurnar í hestaferð og skildu töskurnar sínar eftir í rútunni sem flutti þær þangað. Að hestaferðinni lokinni komast þær að því að rútan er farin og í stað hennar er komin önnur rúta. Að sögn starfsmanna rútufyrirtækisins Gray Line hafa töskurnar enn ekki fundist.

„Rútubílstjóri fyrri rútunnar sá okkur raða töskunum fyrir ofan sætin okkar en varaði okkur samt ekki við því að önnur rúta myndi koma í staðinn. Við uppgötvuðum um leið og við komum í nýju rútuna að töskurnar voru ekki til staðar. Ég hringdi þá í rútufyrirtækið og var þá sagt að bíða fram á nótt og hringja aftur eftir miðnætti því þá væri hægt að leita í rútunni,“ segir önnur stúlknanna, Yushan Chai, í samtali við mbl.is.

„Ég hringdi svo margoft um kvöldið og nóttina en enginn svaraði hjá fyrirtækinu. Loks svaraði einhver klukkan þrjú um nóttina og sagði þá að ekkert hefði fundist.“ Í töskunum voru peningar, myndavélar og fleira en vegabréfin skipta stúlkurnar mestu máli.

Kínverska sendiráðið hefur gefið þeim vegabréf til bráðabirgða en það gerir þeim hins vegar ekki kleift að fara aftur til Bretlands. Til að njóta landvistar í Bretlandi þurfa þær sérstaka vegabréfsáritun fyrir námsmenn sem glataðist með vegabréfunum, en Yushan Chai er að læra arkitektúr í Brighton og hin stúlkan, Jixin Yu, er að læra stærðfræði í Liverpool.

Breska sendiráðið lokað

Að sögn Chai er útlit fyrir að þær þurfi að fara aftur til Kína til að útvega nýjar vegabréfsáritanir. Þá myndu þær að öllum líkindum þurfa að bíða í mánuð eftir nýrri vegabréfsáritun en sú bið hefði alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir stúlkurnar. Chai á að skila lokaverkefni til meistaraprófs í arkitektúr um miðjan janúar og Yu þarf að þreyta lokapróf í B.S. námi í stærðfræði þann 19. janúar.

Vegabréfsáritunin sem stúlkurnar þurfa er gefin út af breskum yfirvöldum. Samkvæmt upplýsingum frá breska sendiráðinu eru dyr þess lokaðar næstu daga en opna aftur á mánudaginn. Að sögn Chai þá er ólíklegt að sendiráðið geti veitt þeim áritun þar sem vegabréfsáritanir fyrir kínverska námsmenn falla ekki undir opinbert hlutverk sendiráðsins. Þá bætir ekki úr skák að háskólarnir í Bretlandi eru lokaðir og enginn getur því staðfest að þær stundi nám þar í landi.

Rútufyrirtækið beri ábyrgð

Jón Víðis Jakobsson hefur aðstoðað þær við að leita að töskunum undanfarna daga, en hann kynntist stúlkunum fyrir algjöra tilviljun.

„Kennari þeirrar sem nemur arkitektúr í Brighton er mágkona mín þar sem hún á íslenskan mann. Stúlkurnar vissu ekki að þær hefðu þessa tengingu við Ísland fyrr en þetta kom fyrir en nú hef ég verið að aðstoða þær síðan á Þorláksmessu,“ segir Jón og bætir við að líklega hafi annar farþegi rútunnar tekið töskurnar ófrjálsri hendi.

„Þær eru búnar að fara til lögreglunnar að tilkynna þjófnað en standa nú ráðalausar gagnvart þessu. Þær eru að hugsa um að fara til London með flugi og sjá hvað gerist þegar þær reyna að komast inn í landið en ég tel það ekki vera sniðuga lausn á málinu,“ segir Jón.

„Forsvarsmenn Gray Line hafa sagt mér að farþegar eigi að taka allan farangur með sér þegar farið er úr rútunum þeirra en stúlkunum var greinilega ekki sagt að gera það. Þær sögðu bílstjóra næstu rútu að töskurnar hefðu týnst en hann sagði þeim ekki að aðhafast neitt heldur bíða og sjá; töskurnar kæmu í ljós. Mér finnst fyrirtækið því bera einhverja ábyrgð í þessu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert