Þrír íslenskir sendifulltrúar munu starfa erlendis fyrir Alþjóða Rauða krossinn þessi jól, þau Elín Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur í Suður-Súdan, Hlér Guðjónsson sem upplýsingafulltrúi í Peking og Þór Daníelsson, yfirmaður sendinefndar Rauða krossins í Mongólíu.
Tveir sendifulltrúar komu heim yfir jólin, hjúkrunarfræðingarnir Hólmfríður Garðarsdóttir, sem hefur verið í Íran, og Magna Ólafsdóttir, sem unnið hefur í ebóluteymi Alþjóða Rauða krossins með aðsetur í Genf.
Þór hefur verið í Mongólíu síðan í febrúar 2013 og kom þá aftur í sömu stöðu og hann var í í landinu frá 2006 til 2009, þ.e. sem yfirmaður Alþjóða Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Þess á milli starfaði hann tvö ár í Darfur í Súdan og var eitt ár í Ísrael og Palestínu.
Þór segir í samtali við Morgunblaðið að þegar hann kom aftur til landsins hafi orðið nokkrar breytingar og efnahagurinn tekið stakkaskiptum. Miklu hafi skipt að stór námufyrirtæki eins og Rio Tinto hafi fjárfest fyrir milljarða dollara í námuvinnslu. Stærstu kolanámur heims eru einmitt í Mongólíu. Einnig eru stórar koparnámur í landinu og að sögn Þórs er franska ríkisstjórnin að undirbúa vinnslu á úrani.
„Allt þetta fjármagn hefur ekki náð til allra í þjóðfélaginu. Þó hefur mikið verið byggt af íbúðarhúsnæði og ríkisstjórnin hefur gegnum bankakerfið greitt niður vexti af húsnæðislánum. Það hefur þó ekki dugað til þar sem enn búa um 500 þúsund manns í fátækrahverfum borgarinnar, svokölluðum Ger-hverfum. Þar er hvorki vatnsveita né holræsakerfi. Ger er hefðbundið húsnæði Mongóla og er í raun hringlaga tjald sem hefur ekkert breyst síðan á tímum Genghis Khan,“ segir Þór.
Hann segir ríkisstjórn Mongólíu hafa fjárfest mikið í vegakerfi landsins og ekki muni líða á löngu þar til allar sýslur landsins verði tengdar með malbiki. „Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann, þegar ferðast var um sveitir landsins og maður sá bilaða og yfirgefna Hummera eða aðra lúxusjeppa.“
Aðspurður segir Þór að jólahald sé ekki mikið í landinu, meira sé gert úr áramótunum þegar kínverska nýárinu er fagnað. Hann segir um 90% Mongóla vera búddista og fylgja Tíbetum að málum þegar kemur að þessum hátíðarhöldum.
„Hér í höfuðborginni, Ulan Bator, er þó mikið um jólaskreytingar og jólatré. En tengingin er meira við áramótin og nýtt ár en jólin. Það mætti frekar kalla þetta nýársskreytingar. Mongólum finnst gaman að skemmta sér þannig að desembermánuður fer mikið í að halda nýársfagnaði. Jólavikan núna er bara venjuleg vinnuvika en um áramótin gefa landsmenn gjafir og þá fyrst og fremst til barna,“ segir Þór.
Hann segir hefðbundinn mat vera á borðum um jól og áramót, ekki svo frábrugðinn íslenskum mat. Fiskréttir séu hins vegar af skornum skammti þar sem Mongólía liggur ekki að sjó.
„Hérna hjá okkur starfsmönnum Rauða krossins verður stór og mikill kalkúnn sem við munum deila með nokkrum vinum. Rauði kross Íslands sendi mér þessa fínu jólagjöf með lakkrís og bók Arnalds Indriðasonar, Kamp Knox, þannig að þetta verða alvöru íslensk jól í ár,“ segir Þór Daníelsson.
Þar vinnur hún ásamt skurðlækni, svæfingalækni og almennum hjúkrunarfræðingi í færanlegu skurðteymi sem gerir aðgerðir á særðum hermönnum í stríðinu sem geisar í landinu. Elín hefur verið þarna síðan í október en fór fyrst til Suður-Súdans sl. vor.
„Við sinnum bæði stjórnarher og andstæðingum. Við höfum einnig verið að gera aðgerðir á almennum borgurum sem hafa orðið fyrir skotum, fullorðnum og börnum sem hafa slasast og gerum keisaraskurði þegar það þarf,“ segir hún
Þessa dagana starfar Elín í norðurhluta landsins og verður þar yfir jól og áramót. Reiknar hún með að þurfa að vinna alla daga og því gefst lítill tími til jólahalds. Heimamenn halda jól, fara í kirkju og borða betri mat ef hann býðst, þá helst geit eða hænu.
„Við sem erum að vinna á aðfangadag ætlum að borða betri mat en við gerum venjulega og hafa það huggulegt. Skordýrin og flugurnar gera okkur aftur á móti lífið leitt á kvöldin þegar dimmt er orðið og við flýjum venjulega snemma inn í moskítónetin sem við sofum í,“ segir Elín, sem hefur fylgst með jólaundirbúningi fjölskyldunnar úr fjarlægð. „Ég sakna hennar að sjálfsögðu og hlakka til að opna pakkana á aðfangadagskvöld sem yndislegu krakkarnir mínir sendu mér,“ segir hún að endingu.