Kínversku stúlkurnar tvær sem setið hafa fastar hér á landi yfir jólin hyggjast fljúga til Bretlands á morgun þrátt fyrir að hafa ekki fengið vegabréfsáritun. Töskur sem geymdu vegabréf stúlknanna hurfu úr rútu sem þær voru farþegar í skömmu fyrir jól og hafa enn ekki komið í leitirnar.
„Það sem við ætlum að gera á morgun er svolítið ævintýralegt,“segir önnur stúlknanna, Yushan Chai, í samtali við mbl.is. „Við höfum reynt allt, haft samband við kínverska sendiráðið, breska sendiráðið og lögregluna til þess að reyna að finna vegabréfin okkar, en ekkert gekk.“
Yushan segir að hún og Jixin Yu hafi keypt sér miða til Bretlands en að einu vegabréfin sem þær hafi undir höndum séu frá kínverska sendiráðinu og gildi í raun aðeins fyrir ferð aftur til Kína. „Það er ekki víst að þau gagnist okkur við að komast inn í England þar sem við erum ekki með breska vegabréfsáritun.“
Flestir starfsmenn breska sendiráðsins á Íslandi eru í jólafríi um þessar mundir og því eiga stúlkurnar erfitt með að nálgast þjónustu þess. Yushan segir einnig að lítið myndi gagnast að bíða af sér hátíðarnar hér á landi þar sem vegabréfsáritanir til Bretlands séu aðeins gefnar út af sérstökum umboðsaðila sem kemur til landsins á eins eða tveggja mánaða fresti.
„Kannski munu landamælaverðirnir á Gatwick flugvelli stoppa okkur og senda okkur aftur til Kína. Ef við förum aftur til Kína mun það taka tvær vikur að fá vegabréf og aðrar tvær vikur að fá vegabréfsáritunina.“
Stúlkurnar stunda háskólanám í Bretlandi og á Jixin á hættu að falla á lokaprófunum sínum komist hún ekki til baka en þau fara fram 19. janúar. Yushin á að skila lokaverkefni um miðjan janúar og segir hún ekki marga góða kosti í stöðunni eins og er.
„Við verðum bara reyna að komast til Bretlands, það er ekkert annað í stöðunni.“
Yushin segir dvölina á Íslandi hafa verið frábæra þar til að vegabréfin týndust en að síðustu dagar hafi verið hræðilegir. Hún er allt annað en sátt við rútufyrirtækið Gray Line.
„Við létum strax vita af því að töskurnar okkar væru í hinni rútunni en þau virðast ekki hafa hringt í rútubílstjórann fyrr en seint um kvöldið,“ segir Yushin. „Svo segja þau að engar öryggismyndavélar séu í rútunum en ég tók sérstaklega eftir því að það var myndavél í þessari rútu.“
Jón Víðis Jakobsson, sem aðstoðað hefur stúlkurnar síðastliðna daga segir forsvarsmenn Gray Line rútufyrirtækisins ekki hafa reynst þeim hjálplegir hingað til „Þeir vilja ekki kannast við að þeir beri ábyrgð á hvarfi taskanna, þrátt fyrir að það hafi verið bílstjóri frá þeim sem keyrði með þær í burtu.“
Rúnar Garðarsson, rekstrarstjóri Gray Line segir að leitað hafi verið þrisvar í öllum bílum sem voru í akstri þennan dag og að einnig hafi verið leitað umhverfis hestaleiguna. Segir hann vinnureglu vera að segja öllum farþegum að taka með sér allan farangur og að það hafi einnig verið gert í þessu tilviki.
„Við teljum okkur ekki bera ábyrgð í þessu máli. Bifreiðastjórinn í ferðinni sagði fólkinu að taka allan farangur með sér þegar það yfirgaf rútuna, hann gekk um bílinn eftir að allir voru farnir og sá engan farangur í bílnum, en við munum samt reyna að aðstoða þessar stelpur eftir því sem við best getum,“ segir Rúnar. Segir hann bílstjórann hafa stoppað við hestaleiguna í um 15 til 20 mínútur og að hann hafi látið alla vita að hann væri að fara aftur í bæinn og myndi ekki koma aftur. Tekur hann sérstaklega fram að um handfarangur stúlknanna hafi verið að ræða og að farþegum beri að taka slíkan farangur með sér þegar þeir yfirgefa bílana.
„Ef bótakrafa berst okkur munum vísa henni á okkar tryggingafélag sem mun þá taka afstöðu til hennar. Hafi mistök verið gerð af okkar hálfu erum viðskiptavinir okkar tryggðir fyrir því hjá okkar tryggingarfelagi.“
Frétt mbl.is: Fastar á Íslandi yfir jólin
Uppfært kl. 13:10:
Þegar fréttin birtist hafði Gray Line ekki svarað fyrirspurn mbl.is. Fréttin hefur nú verið uppfærð og inniheldur svar fyrirtækisins.