Fá farið og gistinguna greidda

Þær Yushan Chai og Jixin Chu ætla að reyna að …
Þær Yushan Chai og Jixin Chu ætla að reyna að komast aftur til Bretlands í dag.

Rútufyrirtækið Grey Line hefur greitt gistingu og flugfar til London fyrir tvær kínverskar stúlkur sem hafa verið fastar hér á landi yfir jólin eftir að vegabréf þeirra hurfu með töskum úr rútu fyrirtækisins. Þær ætla að láta á reyna að komast til Bretlands í kvöld þrátt fyrir að þær vanti vegabréfsáritunina sem þarf til.

„Við hittum framkvæmdastjóra rútufyrirtækisins í gær. Við töluðum við bílstjórann sem ók okkur. Það góða er að þeir endurgreiða okkur,“ segir Yushan Chai, önnur stúlknanna tveggja, í samtali við mbl.is. Fyrirtækið ætlar að greiða þeim fyrir flugfar til London og fyrir gistingu þeirra hér á landi eftir að þær töpuðu vegabréfum sínum.

Þær Yushan og Jixin Yu komu til landsins 19. desember síðastliðinn og áttu bókað flug aftur til Englands á Þorláksmessu. Þann 21. desember fóru stúlkurnar í hestaferð og skildu töskurnar sínar eftir í rútunni sem flutti þær þangað. Í þeim voru meðal annars vegabréf þeirra. Að hestaferðinni lokinni komast þær að því að rútan var farin og í stað hennar var komin önnur rúta. Kínverska sendiráðið hefur gefið út vegabréf til bráðabirgða en það gerir þeim hins vegar ekki kleift að fara aftur til Bretlands. Til að fá heimild til landvistar í Bretlandi þurfa þær sérstaka vegabréfsáritun fyrir námsmenn sem glataðist með vegabréfunum.

Fékk skjöl að utan til að sýna fram á skólavist og búsetu á Bretlandi

Þær ætla engu að síður að reyna að komast aftur til Bretlands, þar sem þær stunda báðar nám, í kvöld. Þær eiga hins vegar á hættu að vera vísað frá landi þar sem þær eru ekki með vegabréfsáritunina. Fari svo þurfa þær að fara heim til Kína fyrst til að fá nýja pappíra útgefna en það gæti tekið allt að mánuð. Það getur sett námsferil þeirra úr skorðum því lokaverkefni og próf bíða þeirra í janúar. Yushan segir rútufyrirtækið hins vegar hafa hafnað því að greiða fyrir mögulega ferð þeirra til Kína ef svo fer.

„Við ætlum samt að reyna. Við erum svolítið taugaóstyrkar en við verðum að reyna. Ef við verðum hér áfram erum við bara að eyða tíma okkar því við getum ekkert gert. Vegabréfin koma kannski fram seinna en ekki á örfáum dögum,“ segir Yushan.

Stúlkurnar þurfa þó ekki að leita alveg tómhentar á náðir breskrar landamæravarða. Yushan segist hafa haft samband við leiðbeinanda sinn í háskólanum í Brighton þar sem hún stundar nám í arkitektúr og hún hafi fengið ýmis skjöl til að staðfesta að hún sé nemandi þar.

„Ég fékk skjöl til að sanna að ég sé nemandi í Brighton. Ég fékk leigusalann minn til að sýna að ég búi í Brighton, ég er með ljósrit af vegabréfinu mínu með vegabréfsárituninni og lögregluskýrsluna. Vonandi gengur það,“ segir hún.

Fyrri fréttir mbl.is:

Fastar á Íslandi yfir jólin

Reyna að komast inn í Bretland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert