Bryndís Kristjánsdóttir leiðsögumaður féll í sprungu skammt frá Þríhnúkagíg fyrir þremur mánuðum. Ótrúlegt þykir að hún hafi lifað fallið af en eftir þrotlausa endurhæfingu frá slysinu er hún á góðum batavegi.
Það eina sem Bryndís man eftir föstudeginum 26. september 2014 er að hafa rætt við bróður sinn í síma snemma um morguninn. Það næsta sem hún man er þegar hún lá á Landspítalanum viku síðar.
Bryndís, sem er leiðsögumaður að mennt og starfar hjá 3H travel sem er með ferðir í Þríhnjúkagíg, var með hóp ferðamanna á leið að gígnum gegnum hraunið í Bláfjöllum þegar slysið varð. Enn er óljóst hvers vegna hún féll í sprunguna og ekki er Bryndís sjálf til frásagnar þar um því minnið hefur ekki komið til baka.
Heppni dauðans
Um fremur fámennan hóp var að ræða enda ein síðasta skipulagða ferðin þetta haustið hjá 3H travel í gíginn. Flestir þeirra eru Bandaríkjamenn en það var lán í óláni að þrjár íslenskar konur, sem starfa við ferðaþjónustu, voru meðal farþega því þær hringdu strax í neyðarlínuna eftir hjálp. „Það var í raun heppni dauðans því þær þekktu símanúmerið 112 á meðan aðrir í hópnum hefðu væntanlega hringt í 911,“ segir Bryndís, sem þekkir þetta svæði eins og lófann á sér eftir að hafa starfað við leiðsögn þarna í tvö sumur.
Ein þeirra var líka með símanúmerið á skrifstofu 3H travel og hringdi beint þangað til að láta vita af slysinu. Bryndís segir að það hafi greinilega verið fremur kalt þennan dag og blautt miðað við öll þau föt sem voru klippt utan af henni eftir slysið. Hún hafði gengið með hópinn frá skálanum í Bláfjöllum og var að lýsa fyrir þeim aðstæðum og jarðfræðinni á þessum slóðum. En Þríhnúkagígur er gígur sem liggur í norðaustasta Þríhnjúknum, rúma 3 km vestur af skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Norður frá gígopinu gengur gríðarmikill gíghellir, Þríhnúkahellir. Er hann talinn eitt stærsta og merkasta náttúrufyrirbæri sinnar tegundar á jörðinni.
Tók 62 mínútur
Brynjar Guðjónsson svaraði símtalinu á skrifstofu 3H travel og hringdi strax í starfsmenn fyrirtækisins sem biðu eftir hópnum við gíginn, þá Björn Ólafsson og Víði Pétursson, sem eru þrautþjálfaðir fjallgöngumenn og hjálparsveitarmenn og vel að sér í skyndihjálp. Þeir stukku beint á hjól sín og komu á slysstaðinn innan fárra mínútna.
Þessi snöggu viðbrögð allra valda því að allt frá því slysið verður er allt gert rétt og getur Bryndís væntanlega þakkað þessum viðbrögðum það að komast jafn vel frá slysinu og raun ber vitni.
„Frá því ég steypist ofan í sprunguna og þyrlan kemur með mig á Landspítalann í Fossvogi líða ekki nema 62 mínútur. Þetta verður til þess að skaðinn er mun minni en hann hefði annars orðið,“ segir Bryndís. Hún reyndist með margháttaða áverka á höfði, hálsi og andliti og mikla blóðsöfnun í höfuðkúpunni. Hún var strax sett í aðgerð, hluti höfuðkúpunnar losaður frá og blóð og vökvi fjarlægt þannig að blóðið náði ekki að fara í gegnum heilahimnuna og olli því ekki frekari skaða en raunin er.
Að sögn Bryndísar veit hún ekki enn í dag hvað gerðist. „Ég hef farið þessa leið svo oft áður og er ekki vön að fara yfir sprunguna á þessum stað“.
Haldið sofandi í öndunarvél eftir slysið
Eldri maður féll einnig í sprunguna á eftir Bryndísi en hann stóð hinum megin við sprunguna. Hvað olli því að hann fór einnig ofan í sprunguna er einnig óútskýrt. Bryndís féll sex metra og væntanlega hafa fæturnir farið á undan en bakpoki sem hún var með á bakinu hafi snúið Bryndísi þannig að hún lenti á höfðinu og svo fylgdi maðurinn á eftir. Bryndís var ekki með hjálm enda ekki komin að gígnum sjálfum og einungis í sakleysislegri gönguferð með ferðamenn í hrauninu.
Bryndís fékk stórt gat á höfuðið, fjölmargar sprungur í beinum í hnakkanum og sprungu í augnbotninn hægra megin og fleiri brot í andliti. Eins brotnuðu hálsliðir á þremur stöðum. „Ég lenti beint á höfðinu þannig að það varð eitthvað að gefa eftir,“ segir Bryndís. Bandaríski ferðamaðurinn slasaðist mun minna og var fljótlega útskrifaður af sjúkrahúsinu.
Brotin sem slík eru gróin segir Bryndís en hún er mjög heppin með hversu hrein brotin voru og ekki þurfti að setja plötu í andlitið til þess að láta brotin þar gróa rétt. Henni var haldið sofandi í öndunarvél á annan sólarhring og var á gjörgæslu í nokkra daga. Hinn 17. október var Bryndís útskrifuð af sjúkrahúsinu sjálfu en flutt á Grensásdeildina og var þar eina viku inniliggjandi. Eftir það hefur hún verið á dagdeild Grensásdeildarinnar fimm daga vikunnar allan daginn. Eftir áramót styttist sá tími í þrjá daga í viku en töluvert er í að Bryndís sé reiðubúin til þess að standa á eigin fótum hvað alla þjálfun varðar.
Í góðu jafnvægi andlega sem líkamlega
Skiptir miklu hversu góðu líkamlegu formi Bryndís var í fyrir slysið en hún hefur í meira en tuttugu ár unnið sem íþróttaþjálfari. Hún flutti til Lúxemborgar 23 ára að aldri en eiginmaður hennar, Jóhann Örn Arnarson er flugstjóri hjá Cargolux. Fyrir tveimur árum fluttu þau til Íslands ásamt börnum sínum tveimur, Erni Frey, sem er tvítugur og Petru Hlíf sem er átján ára. Eins er Bryndís mikil fjallageit og skíðamanneskja. Hún viðurkennir að þetta hafi komið sér vel við endurhæfinguna en auk líkamlegra áverka þurfti hún að takast á við slysið andlega.
„Ég held að það hafi líka haft mikið að segja að ég var í góðu jafnvægi andlega sem og líkamlega. Ég fékk mikið höfuðhögg eins og gefur að skilja og ég þjáist af stöðugum höfuðverk. Einn af fylgifiskum höfuðáverka er óstjórnleg og óútskýranleg þreyta sem hellist yfir mann við minnsta álag. Það er eitt að vera þreyttur líkamlega, sem ég þekkti vel fyrir slysið, en það að vera andlega uppgefin er eitthvað sem ég þekkti ekki áður og tekur ótrúlega mikið á. En mér er sagt að þetta sé mjög eðlilegt miðað við þá miklu áverka sem ég fékk á höfði í slysinu,“ segir Bryndís.
Starfsfólkið stórkostlegt á Grensásdeildinni
Bryndís er full aðdáunar þegar hún talar um starfsfólkið á Grensásdeildinni. Hún segir að stofnun eins og Grensás sé ekkert annað en fólkið sem vinnur þarna. „Það eru gerð kraftaverk á Grensási á hverjum degi og alveg ljóst að starfsfólkið er ekki þarna vegna launanna heldur er þetta köllun fyrir flesta þeirra,“ segir Bryndís. Fjölmennur hópur heilbrigðisstarfsmanna er á bak við hvern sjúkling eins og Bryndísi en hún var í lífshættu fyrsta sólarhringinn eftir slysið og nú þremur mánuðum síðar er endurhæfingunni hvergi nærri lokið.
Bati Bryndísar er ótrúlegur en hún var algjörlega rúmliggjandi fyrsta mánuðinn eftir slysið. Hún þurfti að læra alla hluti upp á nýtt, til að mynda að ganga á ný og eins var öll samhæfing ekki upp á sitt besta í upphafi. „Þetta hefur örugglega verið bráðfyndið að sjá mig skrölta um, með lepp fyrir auganu vaggandi til og frá eins og ég hefði drukkið tvær flöskur af tequila í brotsjó. En þetta er allt á réttri leið og mér miðar eitt og eitt skref áfram, segir Bryndís. Spurð um minnið segir Bryndís að skammtímaminnið sé enn gloppótt og hún hafi í raun talið sig vera minnislausa um styttra tímabil en raunin er því hún hafði hreinlega ekki gert sér grein fyrir því hversu langur tími var liðinn frá slysinu þar til hún náði almennilega áttum.
Minnti á illa rúllaða spægipylsu
Jóhann var í vinnuferð á Flórída þegar hann að vita símleiðis að konan hans hefði lent í slysi. Í fyrstu vissi hann ekki neitt nema að hún hefði meitt sig, hvort slysið hefði verið alvarlegt eða ekki. Hann lét starfsfélaga hjá Cargolux í Lúxemborg strax vita og að það væri möguleiki að hann þyrfti að fara með hraði til Íslands. Nokkru síðar fékk hann nánari fréttir og ljóst að hann var á heimleið.
„Þarna kom berlega í ljós hvað það er gott að vinna hjá góðu fyrirtæki. Allt var sett í gang og honum komið í flug frá Miami til Boston og þaðan til Íslands. Slysið átti sér stað skömmu fyrir hádegi á föstudegi og snemma morguninn eftir var Jóhann kominn til Bryndísar á sjúkrahúsið.
„Ég var náttúrlega ekkert voðalega falleg og minnti helst á illa rúllaða spægipylsu,“ segir Bryndís og brosir þegar hún lýsir því hvernig hennar nánustu hlýtur að hafa orðið við þegar þau komu til hennar á sjúkrahúsið. Svo heppilega vildi til að Örn Freyr sonur hennar var að bíða eftir móðurbróður sínum þegar hringt var í hann og honum sagt frá því að mamma hans hefði fallið í sprunguna. Bryndís er afar fegin því að hann hafi fengið fréttirnar heima en ekki í gegnum fréttavefina á síma sinn því fréttaflutningurinn var ansi misvísandi í fyrstu. Hún segist í rauninni ekki skilja hvers vegna þurfi alltaf að birta fréttir af jafn alvarlegum slysum sem þessum strax, jafnvel áður en nánasta fjölskylda viti að einhver nákominn er í lífshættu eða jafnvel dáinn. Örn fór því ekki skólann heldur beint á Landspítalann þar sem móðir hans gekkst undir stóra aðgerð sem tvísýnt var um hvernig færi. Petra var í skólanum þegar slysið varð en afi hennar fór þangað og náði í hana þannig að það tókst einnig að koma í veg fyrir að hún fengi fréttirnar í fjölmiðlum.
Óvíst um sjónina
Sjónin gerir Bryndísi enn erfitt fyrir en með því að hafa lepp fyrir öðru auganu getur hún lesið og horft á sjónvarp. Hún er hins vegar ófær um að keyra og kemur sér því vel að börn hennar eru bæði með bílpróf og eru mjög dugleg að keyra hana sem og aðrir í fjölskyldunni.
Óvíst er hvert framhaldið verður varðandi sjónina. Þau próf sem læknar hafa gert sýna að engin breyting hefur orðið á henni og skaðinn hefur ekki gengið til baka. Óvíst er hvenær það verður eða hvort það verður.
Hún segir að stefnt hafi verið að því að útskrifa hana af Grensásdeildinni fyrir jól en nú hafi verið ákveðið að halda meðferðinni áfram. „Ég er mjög fegin því þó svo það sé margt sem ég gert sjálf þá er ég ekki tilbúin til þess að þau sleppi af mér hendinni strax, heldur fylgist með mér en ég segi sjálf að ég sé hálfgerður búðingur þessa mánuði og þurfi að vera í bómull.“
Kilimanjaro var gulrótin
Framfarir Bryndísar hafa verið hraðar og miklar á stuttum tíma enda annálaður þrjóskuhundur af þeim sem til þekkja. Hún viðurkennir að veturinn sé ekki auðveldur þar sem hún gerir sér illa grein fyrir misfellum, birtan af snjónum hjálpar ekki til og svo sé henni alltaf kalt og finni fyrir áverkunum á hálsi og hnakka. Flestir eiga sér sína gulrót og markmið þegar þeir eru endurhæfingu eftir veikindi eða slys og Bryndís er þar ekki undanskilin. Hennar gulrót var ferð á Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku (5.895 metrar að hæð), í janúar.
Þá mun Leifur Örn Svavarsson fara með hóp á vegum Íslenskra fjallaleiðsögumanna til Afríku þar sem hann ætlar að klára álfutindana sjö. Þar á einnig að klífa Merufjall sem er 4.566 metrar að hæð.
Bryndís segir að þegar hún hafi spurt lækninn að því þegar hún lá á Landspítalanum í Fossvogi fyrir tveimur mánuðum hvort hún kæmist ekki á Kilimanjaro í janúar eins og hún hefði ætlað sér hefði læknirinn litið á hana og glott og sagt að hún gæti haft það sem gulrót. Hann kom síðan fljótlega aftur til hennar og sagðist vera vanari því að fá þá spurningu frá sjúklingum sínum hvort þeir þyldu að fljúga á sólarströndu. „En það er engin lygi – ég hélt þessu opnu og fer bara síðar, fjallið fer ekki neitt,“ segir Bryndís og lýsa þessi orð hennar því hvernig hún tekst við afleiðingar slyssins af æðruleysi.
„Ein af stærstu áskorunum er að læra þolinmæði og að hlutirnir þurfi ekki að gerast strax. Ég tek einn dag í einu og er ekki að stressa mig yfir hlutum sem þurfti helst að ljúka við í gær. Þetta tekur á en gengur vel,“ segir Bryndís.
Allir starfsmenn 3H travel eru þrautþjálfaðir í fyrstu hjálp og allir sem komu að brugðust hárrétt við, björgunarsveitarfólk, flugmenn hjá Norðurflugi og áhöfn Landhelgisgæsluþyrlunnar. Henni og manninum sem einnig féll í sprunguna var bjargað upp og þau flutt á Landspítalann með þyrlu þar sem teymi sem tók við henni og gerði aðgerðina á höfði Bryndísar sem bjargaði lífi hennar. Eins og Bryndís segir: „Það eru mörg lítil atriði sem verða þess valdandi að allt gekk vel og ég er að ná heilsu á ný.“
Eins hafi komið berlega í ljós eftir slysið hvað aðstandendur og vinir hafa staðið á bak við fjölskylduna eftir slysið. Hún segir að það sé stórkostlegt eftir öll þessi ár í útlöndum að finna hvað maður eigi góða að. Því það sé eitthvað sem ekki sé sjálfgefið.
Spurð um framhaldið segist Bryndís ekki vita hvað verður. Hún lauk námi í leiðsögumannaskólanum sl. vor og starfaði sem leiðsögumaður, bæði fyrir 3H travel og Íslenska fjallaleiðsögumenn frá því hún flutti heim. Hvort hún haldi því áfram síðar á eftir að koma í ljós. Hana langi til að fara í tvær vikur í febrúar á hitt heimili sitt í Lúxemborg en hvort það er hægt er ekki vitað á þessari stundu. Það sé eitthvað sem hún skoði með læknum sínum á nýju ári. „Það er eitt af því sem ég hef lært – við tökum á því þegar þar að kemur.“