Milli horfinna flugvéla, ebólu faraldursins, ótal lekamála og alls þess góða fólks sem heimsbyggðin missti á árinu virðist 2014 hafa verið borið ofurliði af slæmum fréttum. Ljóst er að árið hefur verið mörgum þungbært en þrátt fyrir þá erfiðleika sem steðjað hafa að var 2014 einnig uppfullt af góðum fréttum, jafnt innan lands sem utan. Börn fæddust, ýmislegt var afrekað og studd var við góð málefni sem aldrei fyrr. Fréttirnar hér að neðan ættu að geta yljað okkur öllum um hjartaræturnar þrátt fyrir að vera aðeins brotabrot af því góða sem árið bar í skauti sér.
Ágústa, er engin venjuleg sjö ára stúlka. Sex ára gömul greindist hún með heilaæxli og eyddi í kjölfarið ári í erfiða krabbameinsmeðferð. Þar fór hún í yfir 40 svæfingar, fjórar aðgerðir, var 88 daga í einangrun og fimm daga í öndunarvél. Ágústa er hinsvegar í raun ofurhetjan Vá-Gústa og sigraðist með ofurkröftum sínum á krabbameininu.
Smelltu hér til að lesa um Vá-Gústu.
84,5 króna lottóvinningi var deilt niður á tvo miða í maí. Þegar eigandi annars miðans, einstæð þriggja barna móðir og 75% öryrki, fór að sækja vinninginn sinn kom óvænt í ljós að hinn vinningsmiðinn var einnig hennar. Konan hafði týnt þeim miða og það var einmitt þess vegna sem hún keypti þann seinni. Sem betur fer fann hún miðann á ný, að sögn fyrir tilstuðlan afa síns heitins, undir bílstjórasætinu sínu.
Smelltu hér til að lesa meira um vinningshafann
Skeifubruninn svokallaði flokkast að sjálfsögðu ekki sem góð frétt en vösk framganga slökkviliðsmanna var þó til fyrirmyndar. Sérlega eftirtektarvert var starf slökkviliðsmannsins Stefáns Más Kristinssonar sem gaf lítið fyrir frívaktina sína og dembdi sér í starfið, íklæddur stuttbuxum og strigaskóm.
Smelltu hér til að lesa meira um Stefán
Hjónin Hafsteinn Steinsson og Elín Kristjánsdóttir Linnet voru á leið úr Norðlingaholti á Landspítalann þegar Elín, sem var ólétt af tíburum fann að sá fyrri myndi ekki bíða mikið lengur. Tók hún sjálf á móti barninu, standandi á Vesturlandsveginum, í morgunumferðinni á þriðjudegi.
Smelltu hér til að lesa meira up ævintýrið á Vesturlandsvegi.
Íslenskir karlmenn sönnuðu það enn og aftur að þeir eru sko alls engar gungur. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 9.000 íslenskir karlmenn skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að þeir styðji jafnrétti kynjanna á vefsíðu herferðarinnar HeForShe. Þóttu Íslenskir karlmenn fljótir til að bregðast við og samkvæmt Ingu Dóru Pétursdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi, hefur árangurinn hér á landi heillað erlent samstarfsfólk hennar.
Smelltu hér til að lesa meira um árangur íslenskra karlmanna
Fjölmargir velviljaðir einstaklingar höfðu samband við Rögnu Erlendsdóttur, einstæða, tveggja barna móður, eftir að hún greindi frá því í viðtali við Morgunblaðið að hún væri komin á götuna. Einn slíkur einstaklingur var kona um áttrætt sem unnið hafði tugi milljóna í lottó og ákvað að styrkja Rögnu um 500 þúsund krónur.
„Ég er eiginlega að þakka fyrir að ég hef aldrei þurft að standa í þessum sporum. Ég var svo ánægð þegar ég var búin að fara í bankann að millifæra þetta. Það var eitt af því dásamlegasta sem ég hef gert um dagana. Það er sælt að þiggja en líka sælt að gefa,“ sagði konan sem var að strauja gardínur þegar blaðamaður sló á þráðinn.
Smelltu hér til að lesa meira um gjafmilda ellilífeyrisþegann.
Nanna Tulinius Ottósdóttir var á ferðalagi milli eyjunnar Koh Tao í Taílandi til eyjunnar Koh Panghan á lítilli ferju þegar kona um borð fékk hríðir. Frásögn Nönnu er kostuleg en þegar spurt var hvort læknir væri um borð rétti hún upp hönd og sagðist kunna skyndihjálp, án þess að vita hvað hún væri að koma sér út í. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður og mikinn öldugang kom heilbrigður Taílenskur drengur í heiminn með dyggri aðstoð Nönnu sem sagði tilfinninguna magnaða.
Smelltu hér til að lesa meira um ævintýri Nönnu.
Sverrir Rolf Sander opnaði kaffihúsið Puffin Coffee heima hjá sér í sumar. Kaffið og tilfallandi góðgæti afhenti hann út um gluggann á Baldursgötu 26 og gat fólk greitt fyrir bollann með frjálsum framlögum. Kaffihúsið var leið Sverris til að safna áheitum fyrir hjólaferð um Bretland sem hann tók þátt í til styrktar rannsóknum á einhverfu. Gaf hann yfir þúsund kaffibolla í sumar og raunar var svo vel tekið í framtakið að hann ákvað að halda því áfram á handahófskenndum tímum.
Smelltu hér til að lesa meira um Puffin Coffee.
„Ég fékk fyrst bréfið frá Princeton og varð hrikalega glöð náttúrlega. En á meðan ég var að lesa það kom tölvupóstur frá Harvard,“ sagði Guðrún Valdís Jónsdóttir í samtali við mbl.is. Háskólarnir eru með þeim bestu í heimi og var komst Guðrún inn bæði á grundvelli góðs námsárangurs og fótboltahæfileika.
Smelltu hér til að lesa meira um afrek Guðrúnar.
Það var ekki átakalaust fyrir st. bernharðshvolpinn Lillu að koma í heiminn en Nora mamma hennar veiktist á meðgöngunni. Þrír hvolpar drápust en Lilla lifði af og Nora var aflífuð, enda illa haldin. Tíkin Þula gekk Lillu í móðurstað og ólst hún upp með fjórum hvolpum, sem er síður en svo sjálfgefið.
Smelltu hér til að lesa meira um Lillu.
Hvað sem hverjum finnst um boltaíþróttir gátu allir hrifist með þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu vann einn sinn stærsta, ef ekki þann alstærsta, sigur frá upphafi. Liðið skellti Hollendingum, bronsliði síðasta HM, á Laugardalsvelli þann 13. október í undankeppni EM í knattspyrnu, 2:0. Þrátt fyrir tap gegn Tékkum á liðið enn góða möguleika á að komast á EM en næsti leikur liðsins er í mars 2015 við Kasakstan.
Smelltu hér til að sjá fleiri myndir frá sigrinum sögulega.
Þrátt fyrir að Sylvía Dagmar Briem og kærasti hennar Emil Þór Jóhannsson hafi ekki ætlað sér að deila fréttinni af erfingjanum með alþjóð eru þau væntanlega sæl með góða sögu í dag. Sylvía vinnur á RÚV og hafði fengið Boga Ágústson til að taka upp frétt af óléttunni að kvöldfréttum loknum og ætluðu skötuhjúin svo að deila henni með vinum og vandamönnum. Myndin sem fylgja átti barneignafréttinni rataði hinsvegar óvart inn í í beina útsendingu í nokkrar sekúndur svo alþjóð fékk óvænt að vita af barnaláni Sylvíu og Emils.
Smelltu hér til að lesa meira um óvænta tilkynningu parsins.
Það voru svo sannarlega fagnaðarfundir þegar fresskötturinn Frosti hitti eigendur sína á nýjan leik eftir þrjú ár á vergangi í félagsskap villikatta. Eigendurnir voru búnir að gefa upp alla von á að finna Frosta á ný og ætluðu ekki að trúa sínum eigin augum þegar Frosti birtist á Facebook-síðu félagsins Villikettir.