Eggert gaf DV og dv.is falleinkunn

Dagblaðið DV.
Dagblaðið DV. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

DV og dv.is fengu falleinkunn í úttekt á stöðu blaðs og netmiðils og stefnumótun til framtíðar. Það var stjórn DV sem fól Eggerti Skúlasyni að vinna stefnumótun fyrir útgáfufélag DV og koma með tillögur að því hvernig efla mætti blað og fjölmiðil; tekjugrunn, bæði áskriftasölu og auglýsingaöflun.

Raunar fól stjórn DV Franca ehf – almannatengslafyrirtæki, að vinna úttektina en Eggert, sem er fyrrverandi fréttamaður og almannatengill, og Eygló Jónsdóttir almannatengill unnu tillögur þar að lútandi.

Eggert var í dag ráðinn ritstjóri DV.

Aðgangshart en ekki árásargjarnt

Þau Eggert og Eygló sendu út netkönnun til starfsmanna DV og tóku viðtöl við starfsmenn og leituðu álits reynds fjölmiðlafólks utan DV. Einungis 50% svörun var í netkönnuninni.

Greint var frá málinu í Morgunblaðinu og á mbl.is í nóvember þegar úttektin var gerð opinber. Í henni má mögulega finna vísbendingar um þær breytingar sem verða á ritstjórnarstefnu DV með nýjum ritstjóra.

Í úttektinni er lagt til að ritstjórnarstefna DV verði endurskoðuð. „Orðið sanngirni er hvergi að finna í ritstjórnarstefnunni... Nauðsynlegt er að færa ritstjórnarstefnuna nær því hlutverki sem fjölmiðlar geta og eiga að sinna, sem er miðlun upplýsinga á sanngjarnan og hlutlausan hátt til almennings,“ segir orðrétt í tillögunni.

Síðar segir: „DV er og hefur lengi verið mikilvægur miðill fyrir íslenskt samfélag. DV á að vera gagnrýnið „götublað“ og stunda það sem kallað er almennt – gul pressa eða tabloid. Blaðið á að vera aðgangshart en það má ekki vera árásargjarnt. Og það á að veita öllum aðhald, ekki bara sumum. Sama lína verður yfir alla að ganga, því áberandi er að álitsgjafar telja að DV hafi dregið fólk í dilka á undanförnum árum; sumum hafi verið hampað, en aðrir fengið fyrir ferðina.“

Höfundar telja að efnistök séu án efa aðalsmerki DV „en um leið vandmeðfarin og umdeild. Til að styrkja það betur þarf að vanda vinnubrögðin og vinna efnið til enda. Eins og einn starfsmaður sagði: „Þótt þú sért dólgur, þarftu ekki að vera vondur dólgur.““

Eggert og Eygló benda á að DV hafi þurft að greiða tugi milljóna króna í skaðabætur og/eða til lögmanna á undanförnum árum, sem hafi leikið fjárhag blaðsins grátt. Bent er á möguleikann á þátttöku blaðamanna í kostnaði af málsóknum.

Orðspor og ímynd miðilsins meðal almennings sé mjög slæm. Fortíðardraugar fylgi miðlinum bæði hjá almenningi og starfsfólki.

Þar sem fjallað er um starfsumhverfi segir m.a.: „Tölvubúnaður á ritstjórn er stórt spurningarmerki. Starfsmenn kvarta ekki undan vélbúnaði, en það er engu fyrirtæki sæmandi að keyra hluta starfsemi sinnar á sjóræningjaútgáfum af hugbúnaði. Þessu þarf að kippa í liðinn strax, enda beinlínis ólöglegt.“

DV innleiði löglegan hugbúnað

Meðal þess sem Eggert og Eygló leggja til er eftirfarandi: „Ritstjórnarstefna DV verði endurskoðuð...

DV setji sér starfs- og hæfisreglur, sérstaklega fyrir blaðamenn.

Vefurinn dv.is verði lagfærður hið fyrsta og hann uppfærður.

Facebook-kommentakerfi dv.is verði lokað þegar blaðamenn eru ekki á vakt. Ritsóðum verði úthýst úr kerfinu.“

Jafnframt leggja höfundar til að farið verði í markaðsátak bæði í tengslum við vef og pappírsútgáfu.

„DV fjárfesti þegar í stað og innleiði löglegan hugbúnað. Við sama tækifæri verði hugað að því að hugbúnaður sé samræmdur.

Sett verði upp nýliðaprógramm fyrir þá starfsmenn sem hefja störf á blaðinu. Fólki verði kynnt vinnubrögð, verkferlar og ritstjórnarstefna.

DV upplýsi um eigendur og slíkar upplýsingar séu ávallt aðgengilegar á vef miðilsins og uppfærðar svo fljótt sem auðið er...

Kannað verði hvort hentugra húsnæði sé í boði fyrir starfsemina.“

Eggert Skúlason er lengst til hægri.
Eggert Skúlason er lengst til hægri. ljósmynd/SteinarH
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka